Dvalar- og atvinnuleyfi í Danmörku

Arbejds- og opholdstilladelse i Danmark
Ríkisborgarar Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar er frjálst að búa og starfa í Danmörku. Ekki þarf vegabréfsáritun eða önnur leyfi. Fyrir ríkisborgara annarra landa gilda aðrar reglur.

Ef þú ert ríkisborgari í öðru norrænu landi

Norrænum ríkisborgurum er heimilt að flytjast búferlum til Danmerkur og starfa þar. Þú þarft hvorki vegabréfsáritun, atvinnuleyfi né dvalarleyfi.

Info Norden hefur tekið saman leiðarvísi þar sem þú getur séð að hverju þarf að huga þegar flutt er til Danmerkur. Sjá tengil neðst á síðunni.

Ríkisborgarar ESB- eða EES-landa eða Sviss

Ef þú ert ekki norrænn ríkisborgari heldur ríkisborgari í ESB-landi, EES-landi eða Sviss er þér heimilt að dvelja í Danmörku í þrjá mánuði. Ef þú ert í atvinnuleit í Danmörku er þér heimilt að dveljast í landinu í allt að sex mánuði.

Ef þú vilt framlengja dvöl þína í Danmörku þarftu að uppfylla dvalarskilyrði ESB og sækja um skráningarvottorð (registreringsbevis). Skráningarvottorðið er staðfesting á réttindum sem ESB-/EES-ríkisborgarar njóta samkvæmt reglum ESB um frjálsa för einstaklinga og þjónustu. Þú sækir um skráningarvottorðið á nyidanmark.dk áður en löglegur dvalartími þinn er á enda. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum nyidanmark.dk.

  Ef þú ert ekki ríkisborgari í öðru norrænu landi, ESB-eða EES-landi eða Sviss

  Meginreglan er sú að þú getir tekið með þér maka þinn og börn yngri en 21 árs. Fjölskyldan þarf þó vegabréfsáritun ef hún er með ríkisfang í landi sem Danmörk krefst vegabréfsáritunar frá.

  Ef maki/sambýlingur eða barn er ríkisborgari í ESB-/EES-landi eða Sviss getur viðkomandi sótt um skráningarvottorð á sama hátt og þú eða sem fjölskyldumeðlimur.

  Ef maki/sambýlingur eða barn er ríkisborgari í öðru ríki getur viðkomandi sótt um dvöl sem fjölskyldumeðlimur en í stað skráningarvottorðs fær viðkomandi dvalarkort í staðinn. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum nyidanmark.dk.

  Ef þú ert ekki ríkisborgari í öðru norrænu landi, ESB-eða EES-landi eða Sviss

  Ef þú óskar eftir því að starfa í Danmörku en ert ekki ríkisborgari á Norðurlöndum, í ESB-landi, EES-landi eða Sviss geturðu kynnt þér nánar möguleikana á vefnum nyidanmark.dk.

  Hafðu í huga að danskt dvalar- og atvinnuleyfi gildir ekki sem dvalar- og atvinnuleyfi í öðrum löndum og að dvalar- og atvinnuleyfi í öðrum löndum gilda ekki sem dvalar- og atvinnuleyfi í Danmörku.

  Ef þú ert ríkisborgari lands utan Norðurlanda, ESB eða EES og vilt búa í öðru norrænu landi eða landi innan ESB/EES á meðan þú vinnur í Danmörku þarftu að sækja um atvinnuleyfi sem vinnuferðalangur (pendler). Til að fá leyfið þarftu að uppfylla sömu skilyrði og þegar sótt er um atvinnu- og dvalarleyfi í í Danmörku. Þú þarft að hafa samband við útlendingayfirvöld í landinu sem þú býrð í til að ganga úr skugga um að þú getir ferðast til vinnu í Danmörku án þess að það hafi áhrif á dvalarleyfi þitt þar.

  Samband við yfirvöld
  Spurning til Info Norden

  Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

  ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

  Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
  Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna