Kennitala í Danmörku

Kunde vælger nummer i køen hos Skattestyrelsen
Frá árinu 1968 hefur verið haldin skrá yfir allt fólk sem býr eða hefur búið í Danmörku. Þetta er danska þjóðskráin, Det Centrale Personregister (CPR). Tilgangur dönsku þjóðskrárinnar er að skrá helstu persónuupplýsingar um fólk og tryggja að fólk sé skráð til heimilis þar sem það í raun býr eða dvelur. Allir sem skráðir eru til heimilis í Danmörku fá úthlutað kennitölu (CPR-nummer).
Getur þú fengið danska kennitölu?
Þú færð kennitölu þegar sveitarfélagið hefur úrskurðað um að þú uppfyllir skilyrði til heimilisskráningar (einnig kallað skráning í þjóðskrá).
Auk þess fá börn sem fæðast í Danmörku af móður sem þegar er skráð í dönsku þjóðskrána sjálfkrafa úthlutað kennitölu og fá heimilisskráningu í dönsku þjóðskránni.
Ef þú hyggst ekki skrá heimili þitt í dönsku þjóðskrána geturðu fengið kennitölu til að nota við að:
- greiða skatt (úthlutað af Skattestyrelsen)
- fá lífeyri í gegnum ATP (úthlutað af ATP)
- skrá einstakling í kirkjubækur, t.d. við fæðingu eða skírn hjá dönsku þjóðkirkjunni (úthlutað af sókn)
- fá útgefið sérstakt dvalarleyfi (úthlutað af Styrelsen for Arbejdsmarked og Rekruttering)
- skrá diplómata í skrá utanríkisráðuneytisins skv. 1. mgr. 47. gr. laga um útlendinga (úthlutað af utanríkisráðuneytinu).
Ef þú hyggst greiða skatt án þess að búa í Danmörku
Ef þú ætlar að greiða skatt í Danmörku en ekki skrá þig þar til heimilis þarftu að leita til Skattestyrelsen og óska eftir því að fá kennitölu.
Skattakennitala er raunveruleg kennitala þannig að ef þú flytur til Danmerkur síðar verður þú skráð/skráður í dönsku þjóðskrána með þeirri kennitölu sem þú fékkst hjá Skattestyrelsen.
Ef þú býrð erlendis og eignast barn
Ef barn þitt fæðist og býr í öðru landi á barnið ekki rétt á að fá kennitölu, jafnvel ekki þótt barnið sé danskur ríkisborgari.
Barnið fær danska kennitölu þegar það flytur til Danmerkur og uppfyllir skilyrði til heimilisskráningar eða getur fengið kennitölu í gegnum aðra stofnun.
Ef barnið er skírt í dönsku þjóðkirkjunni mun það þó fá úthlutað kennitölu af sókninni. Flytjist barnið til Danmerkur síðar heldur það þeirri kennitölu sem það fékk hjá sókninni.
Athugaðu að barnið getur fengið danskt vegabréf þótt það sé ekki með danska kennitölu.
Í sumum tilvikum er hægt að fá nýja kennitölu
Þú getur fengið nýja kennitölu ef það er villa í núverandi kennitölunni þinni eða í sérstökum tilvikum þegar kennitalan hefur verið misnotuð.
Þar sem síðasti tölustafur kennitölunnar gefur til kynna kyn geturðu fengið úthlutað nýrri kennitölu sem endurspeglar kyn þitt ef þú ert trans.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu dönsku þjóðskrárinnar.
Samsetning danskra kennitalna
Danskar kennitölur samanstanda af tíu tölustöfum. Fyrstu 6 stafirnir eru fæðingardagur einstaklingsins og síðustu fjórar eru svokölluð raðnúmer sem eru „tilviljanakenndar“. Síðasta talan er alltaf slétt tala hjá konum og oddatala hjá körlum.
- Tölur 1–2 vísa til fæðingardags viðkomandi
- Tölur 3–4 vísa til fæðingarmánaðar viðkomandi
- Tölur 5–6 vísa til fæðingarárs viðkomandi, án árhundraðs.
- Tölur 7–10 er raðnúmer.
- Samsetning talna númer 5, 6 og 7 gefur til kynna á hvaða öld viðkomandi fæddist og 10. talan gefur til kynna kyn viðkomandi.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.