Leiðbeiningar: Nám í Danmörku

Studerende på et bibliotek

Studerende på et bibliotek

Photographer
Yadid Levy/norden.org

Námsmenn á bókasafni

Ungu fólki á Norðurlöndum bjóðast margvísleg tækifæri til að stunda nám í Danmörku. Hér má fá yfirlit yfir allt sem þú þarft að vita: Hvernig finnurðu draumanámið? Hvað þarf að hafa í huga við flutninga? Hvernig nýtist menntunin þér að námi loknu?

Norrænu löndin bjóða námsmönnum frá öllum Norðurlöndum jöfn tækifæri til að stunda háskólanám alls staðar á Norðurlöndum. Þetta má þakka samningi Norðurlanda um aðgang að æðri menntun.

Hvar er hægt að nálgast upplýsingar um nám í Danmörku?

Nánar má lesa um háskólanám á síðum Info Norden. Hér er að finna upplýsingar um ólíkar gerðir náms, svo sem háskólanám, fagmenntun á háskólastigi og starfsmenntun á háskólastigi.

Á vefsvæðinu UddannelsesGuiden er að finna nýjar og nákvæmar upplýsingar á dönsku um allar opinberlega viðurkenndar námsleiðir í Danmörku, þ.e. framhaldsskólanám, háskólanám og fullorðinsfræðslu og endurmenntun.

Vefsvæðið studyindenmark.dk er ætlað fyrir erlenda námsmenn og inniheldur upplýsingar um námsleiðir á ensku ásamt almennum upplýsingum um nám í Danmörku.

Hvernig fær maður inngöngu í nám í Danmörku?

Bakkalárnám og fag- og starfsnám á háskólastigi

Sótt er um aðgang að háskólanámi í Danmörku í gegnum optagelse.dk. Allir umsækjendur með erlend prófskírteini þurfa að sækja um í síðasta lagi 15. mars kl. 12. Námspláss skiptast milli tveggja kvóta, þ.e „kvóta 1“ og „kvóta 2“. Norrænir umsækjendur eru metnir bæði í kvóta 1 og kvóta 2.

Í kvóta 1 byggjast aðgangskröfur á ýmsum faglegum kröfum fyrir hverja námsleið, auk meðaleinkunnar. Upplýsingar um mat á faglegum kröfum og umreikning á einkunnum milli landa má nálgast í leiðbeiningum mennta- og rannsóknaráðuneytis Danmerkur, „eksamenshåndbogen“.

Framhaldsnám á háskólastigi

Til að fá aðgang að meistaranámi er þess alla jafna krafist að umsækjendur hafi lokið við gráðu sem samsvarar danskri bakkalárgráðu. Upplýsingar um inntökuskilyrði og umsóknarferli fyrir tilteknar námsleiðir á meistarastigi má nálgast hjá viðkomandi háskóla. Hafðu beint samband við háskólann til að fá frekari upplýsingar.

Hvaða tækifæri eru á skiptinámi í Danmörku?

Margir sem stunda háskólanám í norrænu landi eiga kost á að sækja um skiptinám í Danmörku í gegnum norræna kerfið Nordplus eða evrópska kerfið Erasmus+.

Hafðu samband við alþjóðaskrifstofu skólans þíns til að fá frekari upplýsingar.

Er hægt að fá fjárhagsaðstoð vegna náms í Danmörku?

Flestir námsmenn frá Norðurlöndum fá fjárhagsaðstoð frá heimalandi sínu. Ef þú ert ríkisborgari í öðru norrænu landi geturðu þó átt möguleika á að fá fjárhagsaðstoð vegna náms frá Danmörku, SU. Það kann til dæmis að vera ef þú hefur dvalist lengi í Danmörku eða ef þú hefur unnið í Danmörku.

Hverju þarf að huga að?

Að mörgu er að huga fyrir þann sem hyggst búa og stunda nám í Danmörku. Þú getur kynnt þér leiðbeiningar Info Norden um flutning til Danmerkur eða fengið helstu vefslóðir hér.

Skráning í þjóðskrá

Nýtist dönsk menntun erlendis?

Alla jafna nýtist háskólamenntun frá Danmörku þér alls staðar á Norðurlöndum en einhverjar námsleiðir eru þó miðaðar að dönskum vinnumarkaði eða reglum. Í öllum norrænu löndunum eru ákveðin starfsheiti jafnframt lögvernduð og krefjast því löggildingar. Ávallt borgar sig að kynna sér reglur um viðurkenningu á námi og löggildingi í því landi sem þú sérð fyrir þér að vilja starfa í að námi loknu.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna