Leiðbeiningar: Flutt til Danmerkur

Bolig i Danmark
Hér er að finna upplýsingar um það mikilvægasta sem hafa þarf í huga og vita af þegar flutt er til Danmerkur.
Dvalar- og atvinnuleyfi

Norrænum ríkisborgurum er heimilt að flytjast búferlum til Danmerkur og starfa þar. Þú þarft hvorki vegabréfsáritun, dvalarleyfi né atvinnuleyfi.

Búslóð

Ef þú flytur frá ESB-landi til Danmerkur er þér frjálst að taka búslóðina með þér. Þó þarftu að huga að sérstökum reglum sem gilda um innflutning á áfengi og sígarettum. Ef þú flytur inn meira en tollfrelsismörk leyfa þarftu að hafa samband við Toldstyrelsen.

Þau sem flytja frá Íslandi og Noregi skulu hafa samband við tollstjóra (Toldstyrelsen) til að fá nánari upplýsingar.

Skráning í þjóðskrá

Ef þú ert ríkisborgari í norrænu landi, ESB-landi, EES-landi eða Sviss áttu rétt á að vera skráð/ur í þjóðskrá í Danmörku ef þú hyggst dvelja í landinu lengur en í þrjá mánuði og þér er skylt að láta skrá þig í þjóðskrá ef þú hyggst dvelja í Danmörku lengur en í sex mánuði. Það sama á við ef þú flytur til Danmerkur frá öðru norrænu landi, óháð ríkisborgararétti. Þér er skylt að tilkynna sveitarfélaginu um flutningana eigi síðar en fimm dögum eftir að þú flytur til Danmerkur.

Hafðu í huga að í sumum löndum þarftu einnig að tilkynna um flutning ef þú ert að flytja frá landinu.

MitID

MitID er rafrænt auðkenni sem notað er til að skrá sig inn á sjálfsafgreiðslulausnir í Danmörku. Hægt er að panta MitID á borger.dk, í gegnum bankann eða með því að leita til borgaraþjónustu í sveitarfélaginu.

NemKonto

Til að geta fengið fé frá hinu opinbera, t.d. ofgreiddan skatt, lífeyri, laun frá hinu opinbera eða fjölskyldubætur, þarf einn af bankareikningunum þínum að vera „NemKonto“ (opinber bankareikningur). Á borger.dk er hægt að gera einn af bankareikningunum að opinberum bankareikningi. Opinberi reikningurinn getur verið í erlendum banka.

Áframsendur póstur

Þú þarft að hafa samband við póstþjónustuna í því landi sem þú ert að flytja frá til að fá frekari upplýsingar um möguleikann á að láta áframsenda póstinn þinn á nýja heimilisfangið þitt í Danmörku.

Húsnæði

Í Danmörku eru ýmsar gerðir íbúðarhúsnæðis og ákveðnar hömlur eru á því hverjir geta átt fasteign.

Bíll

Ef þú átt bíl þarf að skrá hann í Danmörku innan 30 daga.

Ökuskírteini

Ef þú ert með ökuskírteini sem gefið er út í Færeyjum, ESB-landi eða EES-landi geturðu notað það í Danmörku. Ef þú átt lögheimili í Danmörku geturðu skipt því út fyrir danskt ESB-ökuskírteini án þess að fara í ökupróf.

Ef þú ert með grænlenskt ökuskírteini geturðu notað það í allt að 90 daga. Eftir það geturðu skipt grænlenska ökuskírteininu út fyrir danskt ökuskírteini ef þú þreytir ökupróf.

Skattamál

Þegar þú hefur verið skráð/ur í þjóðskrá í Danmörku ber þér að hringja í Skattestyrelsen (skattstjóra) í síma (+45) 72 22 28 92. Skattestyrelsen gefur þá út skattkort fyrir þig. Þú þarft að vita hvað þú munt hafa í tekjur og hvaða öðrum tekjum og frádrætti þú gerir ráð fyrir.

Yfirleitt þarf einnig að gera skattayfirvöldum í landinu sem þú ert að flytja frá um flutninginn.

Þú getur nálgast frekari upplýsingar um skatt á Nordisk eTax-vefgáttinni sem rekin er í samstarfi skattyfirvalda á Norðurlöndunum.

Almannatryggingar

Það skiptir máli í hvaða landi þú átt aðild að almannatryggingum upp á það hvaða reglur eiga við um lífeyri, atvinnuleysistryggingar, sjúkradagpeninga, fjölskyldubætur, foreldrarlof og fleira. Meginreglan er að einstaklingur á aðild að almannatryggingum í því landi sem hann starfar. Þau sem ekki eru með atvinnu eiga yfirleitt aðild að almannatryggingum í því landi sem þau búa. Aðstæður geta þó verið sérstakar. Þú þarft því að hafa samband við yfirvöld í því landi sem þú býrð, vinnur eða stundar nám í ef þú ert í vafa.

Lífeyrisgreiðslur

Ef þú færð lífeyri frá öðru norrænu landi þarftu að hafa samband við þá stofnun sem sér um lífeyrisgreiðslur í því landi til að fá upplýsingar um hvað þú getur fengið greitt ef þú flytur til Danmerkur. Einnig þarftu að kynna þér reglur um skattlagningu lífeyris bæði í landinu sem þú flytur frá og í Danmörku. Það geturðu gert á Nordisk eTax-vefgáttinni sem rekin er í samstarfi skattyfirvalda á Norðurlöndunum.

Ef þú ert með lífeyrissparnað í öðru landi þarftu að hafa samband við lífeyrissjóðinn til að fá nánari upplýsingar um hvað gerist þegar þú flytur til Danmerkur.

Í Danmörku ávinnur þú þér rétt til danskra lífeyrisgreiðslna (örorku- og ellilífeyris) á meðan þú ert aðili að dönskum almannatryggingum.

 

Atvinnuleysistryggingasjóður (A-kasse)

Ef þú ert aðili að dönskum almannatryggingum gilda danskar reglur um atvinnuleysistryggingar. Ef þú vilt vera aðili að atvinnuleysistryggingu og ávinna þér rétt til atvinnuleysisbóta í Danmörku þarftu að skrá þig í danskan atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta þarf að gera innan átta vikna ef þú vilt geta talið með tryggingatímabil í öðrum norrænum ríkjum eða ESB- eða EES-löndum.

Heilbrigðisþjónusta og sjúkraskírteini

Þegar þú ert skráð/ur í almannatryggingar í Danmörku færðu sjúkraskírteini sem staðfestir að þú hafir rétt á heilbrigðisþjónustu í Danmörku. Ef þú ert almannatryggð/ur í Danmörku þarftu að sækja um evrópska sjúkratryggingakortið í Danmörku.

Tryggingar

Sumar tryggingar eru lögbundnar í Danmörku.

Gæludýr

Ef þú átt hund er þér skylt að vera með hundatryggingu. Ákveðnar hundategundir eru bannaðar í Danmörku.

Skólar og leikskólar

Sveitarfélög í Danmörku reka skóla og leikskóla. Fáðu nánari upplýsingar hjá sveitarfélaginu sem þú hyggst flytja til.

Kosningaréttur

Ef þú ert með lögheimili í Danmörku og ert ríkisborgari í ESB-landi eða norrænu landi hefurðu kosningarétt í sveitar- og landshlutastjórnarkosningum. Ef þú ert ríkisborgari í ESB-landi og býrð í Danmörku geturðu kosið til Evrópuþings í Danmörku að því tilskildu að þú kjósir ekki samtímis í heimalandinu þínu. Aðeins danskir ríkisborgarar með fasta búsetu í Danmörku hafa kosningarétt í þingkosningum.

Að hverju þarf að gæta í landinu sem flutt er frá?
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna