Endurhæfing í Svíþjóð

Rehabilitering i Sverige
Hér geturðu lesið þér til um sænskar reglur um endurhæfingu. Ef þú getur ekki unnið vegna veikinda getur Försäkringskassan í Svíþjóð metið þarfir þínar fyrir endurhæfingu og aðstoðað þig við það sem þú þarft að gera til að geta byrjað aftur að vinna. Vinnuveitandi þinn í Svíþjóð getur einnig aðstoðað þig með hjálpartæki og að aðlaga vinnustaðinn að þínum þörfum.

Endurhæfing felur í sér ýmsa þætti sem geta verið nauðsynlegir fyrir þig ef þú hefur verið að glíma við veikindi eða slasast til að þú getir endurheimt líkamlegan og andlegan styrk þinn eins mikið og hægt er.

Reglur um endurhæfingu í Svíþjóð

Ef þú getur ekki unnið vegna veikinda ná reglur um endurhæfingu til þín. Endurhæfing samanstendur af ýmsum þáttum sem verða skipulagðir í samráði við þig, eftir þínum þörfum, og markmiðið er að þú getir byrjað aftur að vinna.

Försäkringskassan á að tryggja að þörf þín fyrir endurhæfingu sé metin og að þú fáir þá endurhæfingu sem þú þarft til að geta byrjað aftur að vinna.

Ef þú starfar hjá vinnuveitanda í Svíþjóð ber hann ábyrgð á að innleiða endurhæfandi þætti á vinnustaðnum. Þetta getur til dæmis verið að aðlaga verkefni þín, vinnutíma og vinnuumhverfið eða að bjóða upp á hjálpartæki. Þetta getur einnig falið í sér að flytja þig til í starfi. Stundum getur verið nauðsynlegt að útfæra starfstengda endurhæfingu, þ.e. vinnuþjálfun eða -menntun, til að þú getir byrjað aftur að vinna.

Ef þú ert ekki launþegi en þarft að fá endurhæfingu til að geta byrjað aftur að vinna skaltu hafa samband við Vinnumiðlunina, Arbetsförmedlingen, sem er sú stofnun sem ber ábyrgð á henni í Svíþjóð.

Skilyrði fyrir endurhæfingu í Svíþjóð

Þú gætir átt rétt til endurhæfingar ef þú býrð og starfar í Svíþjóð, ert með takmarkaða starfsgetu og uppfyllir skilyrði laganna.

Hafðu samband við Försäkringskassan til að athuga hvort þú uppfyllir skilyrði fyrir endurhæfingu í Svíþjóð.

Ef þú hefur nýlega flutt til Svíþjóðar og varst í endurhæfingu í því landi sem þú fluttir frá skaltu hafa samband við almannatryggingar í því landi og einnig Försäkringskassan í Svíþjóð til að fá upplýsingar um endurhæfingarferlið.

Hafðu samband við Försäkringskassan í Svíþjóð ef þú fyrirhugar að flytja eða ferðast til annars norræns lands frá Svíþjóð.

Endurhæfingarstyrkir í vinnu- og búsetulandinu

Skipta má endurhæfingarstyrkjum upp í greiðslur og þjónustu. Venjulega færðu þessa styrki frá landinu sem þú starfar og býrð í. Skilyrði fyrir greiðslum eru mismunandi milli norrænu landanna.

Meginreglan er að lög landsins sem þú stafar í segja fyrir um hvort þú eigir rétt á peningagreiðslum.

Starfsfólk á yfirleitt rétt á þjónustu á borð við menntun og vinnuþjálfun frá búsetulandinu.

Ef þú býrð í einu norrænu ríki og stafar í öðru gætir þú einnig átt rétt á þjónustu frá landinu sem þú stafar í. Styrkirnir ráðast af lögum viðkomandi lands.

Ef þú býrð í Svíþjóð en starfar í öðru norrænu skaltu hafa samband við almannatryggingar í því landi þar sem þú starfar. Ef þú þarft á starfstengdri endurhæfingu að halda skaltu hafa samband við Försäkringskassan í Svíþjóð. Þér verður þá úthlutað ráðgjafa hjá Försäkringskassan sem mun hafa samband við þig.

Hvert er hægt að snúa sér með spurningar?

Þú getur hringt í þjónustuver Försäkringskassan í síma +46 (0)771-524 524 eða leitað upplýsinga á vef Försäkringskassan.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna