Rafræn skilríki í Svíþjóð
BankID eru þau rafrænu skilríki sem eru langalgengust í Svíþjóð. Flest fyrirtæki og opinberar stofnanir sem bjóða upp á stafræna þjónustu sem krefst innskráningar og auðkenningar nota BankID. En BankID er þó ekki eina auðkennisþjónustan í Svíþjóð.
Hvað eru sænsk rafræn skilríki?
Sænsk rafræn skilríki gera þér kleift að auðkenna þig þegar þú notar stafræna þjónustu. Þau eru örugg og þægileg leið til að staðfesta auðkenni og koma í stað efnislegra persónuskilríkja. Þau gefa þér kleift að nota þjónustu hins opinbera, skrá þig inn á bankareikninga, undirrita rafrænt og margt fleira, allt saman á netinu.
Hvernig virka sænsk rafræn skilríki?
Sænsk rafræn skilríki virka með samsetningu kennitölu þinnar og kóða eða lykils. Þessi samsetning skapar einstaka stafræna undirskrift sem staðfestir auðkenni þitt og gefur þér aðgang að ýmissi þjónustu á netinu.
Til hvers er hægt að nota sænsk rafræn skilríki?
Sænsk rafræn skilríki gefa þér aðgang að ýmissi þjónustu á netinu:
- Þjónusta hins opinbera Þú getur skráð þig inn á vefsíður stofnana til að sinna verkefnum á borð við að breyta lögheimili þínu, skilað skattframtalinu og nýtt þér heilbrigðistengda þjónustu.
- Bankaþjónusta: Þú getur skráð þig inn á bankareikninginn þinn, framkvæmt millifærslur, athugað stöðuna og margt fleira.
- Rafræn undirritun: Þú getur undirritað skjöl og samninga rafrænt á netinu.
- Verslun og þjónusta: Þú getur verslað á netinu og skráð þig með öruggum hætti inn á ýmsa þjónustu.
Hvaða rafrænu skilríki eru í boði í Svíþjóð?
Þrjár viðurkenndar gerðir rafrænna skilríkja eru í boði fyrir einstaklinga í Svíþjóð:
- BankID (gefið út af bönkum): Þú þarft að hafa sænska kennitölu og vera viðskiptavinur eins af bönkunum sem gefa út BankID. Bankarnir gera mismunandi aldurskröfur en ef þú ert yngri en 18 ára þarftu að fá leyfi frá foreldri eða forráðamanni.
- Freja+ (gefið út af Freja eID Group AB): Þú þarft að hafa sænska kennitölu eða staðfesta samræmingartölu, gild persónuskilríki og ekki hafa búið erlendis í meira en þrjú ár. Ef þú ert með samræmingartölu þarftu annaðhvort að hafa lögheimili í Svíþjóð eða hafa flutt lögheimili þitt þaðan fyrir minna en þremur árum síðan.
- AB Svenska Pass (gefið út af sænskum skattyfirvöldum): Þú þarft að hafa lögheimili í Svíþjóð, vera 13 ára eða eldri og geta framvísað persónuskilríkjum. Ef þú ert yngri en 18 ára þarftu að fá leyfi frá foreldri eða forráðamanni.
Hvernig færðu sænsk rafræn skilríki?
Fylgdu þessum leiðbeiningum til að fá rafræn skilríki í Svíþjóð.
- Veldu útgefanda: Veldu viðurkenndan útgefanda sænskra rafrænna skilríkja, til dæmis bankann þin eða annan þjónustuaðila.
- Farðu á vefsíðu útgefandans: Farðu á vefsíðu útgefandans og fylgdu leiðbeiningum hans til að sækja um rafræn skilríki.
- Auðkenning: Þú þarft að auðkenna þig með kennitölu þinni.
- Staðfesting: Útgefandinn mun staðfesta upplýsingarnar þínar og gefa út rafrænu skilríkin.
- Virkjun: Fylgdu leiðbeiningunum um virkjun rafrænu skilríkjanna.
Hver getur fengið sænsk rafræn skilríki?
Til að geta fengið sænsk rafræn skilríki þarf að uppfylla viss skilyrði:
- Búseta í Svíþjóð: Þú þarft að vera með skráð lögheimili í Svíþjóð.
- Kennitala: Þú þarft að hafa kennitölu frá hinni sænsku þjóðskrá. Þú getur þó fengið Freja+ ef þú ert með staðfesta samræmingartölu.
Er hægt að fá sænsk rafræn skilríki með samræmingartölu?
Það er aðilinn sem gefur út rafrænu skilríkin sem ákveður hvort þú getir fengið rafræn skilríki hjá honum. Þú skalt því hafa samband við útgefanda rafrænu skilríkjanna sem þú vilt nota.
Sænska stofnunin DIGG, sem hefur eftirlit með rafrænum skilríkjum og samþykkir þau, leyfir útgáfu rafrænna skilríkja til einstaklinga með samræmingartölu. Fyrirtækið sem gefur skilríkin út sem þarf þó fyrst að geta sýnt DIGG fram á að það geti auðkennt þig með öruggum hætti þegar þú sækir um.
Getur þú fengið sænsk rafræn skilríki ef þú býrð erlendis?
Það er aðilinn sem gefur út rafrænu skilríkin sem ákveður hvort þú getir fengið rafræn skilríki hjá honum – til dæmis hvort þú þurfir sænska kennitölu, samræmingartölu eða að hafa lögheimili í Svíþjóð.
Óháð þjóðerni þínu ert þú skráð(ur) í þjóðskrá ríkisins, SPAR, ef þú hefur skráða búsetu í Svíþjóð. Ef þú flytur alfarið frá Svíþjóð eru upplýsingarnar þínar fjarlægðar úr SPAR eftir fimm ár.
Sænskir ríkisborgarar sem eru búsettir erlendis geta þess vegna lent í vandræðum þegar þeir reyna að endurnýja eða stofna sænsk rafræn skilríki.
Þegar reynt er að búa til eða endurnýja rafræn skilríki athuga flestir bankar upplýsingar í SPAR. Ef upplýsingar um þig er ekki að finna í SPAR getur það þýtt að þú getir ekki fengið rafræn skilríki.
Hægt er að biðja um að fresta eyðingu upplýsinga eða endurheimt þeirra í SPAR.
Átt þú rétt á sænskum rafrænum skilríkjum?
Í Svíþjóð eru engin lög sem mæla fyrir um hverjir skuli hafa rafræn skilríki. Það þýðir að þú getur ekki krafist þess að fá til dæmis BankID. Það eru bankarnir sjálfur sem ákveða til hverra þeir gefa út BankID.
Nánari upplýsingar og samskipti
Nánari upplýsingar um sænsk rafræn skilríki og hvernig sótt er um þau fást á vefsíðum útgefendanna eða á elegitimation.se.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.