Helgidagar í Svíþjóð
Helgidagar eru svo til þeir sömu á öllum Norðurlöndum. Í Svíþjóð eru skírdagur og annar í hvítasunnu þó ekki helgidagar líkt og í öðrum norrænum löndum og eru þar af leiðandi ekki frídagar.
Aftur á móti eru þrettándi dagur jóla, allraheilagramessa, 1. maí, þjóðhátíðardagur Svía og miðsumarsdagur helgidagar og frídagar í Svíþjóð.
Helgidagar og aðrir frídagar í Svíþjóð
Í Svíþjóð er munur á helgidögum, sem oft eru nefndir „rauðir dagar“, og öðrum frídögum.
Í Svíþjóð eru 13 helgidagar á ári hverju. Alla jafna eiga starfsmenn á flestum vinnustöðum frí á helgidögum:
Margir fá þó frí á fleiri dögum en þessum. Ef páskadagskvöld, miðsumarskvöld, aðfangadagskvöld og gamlárskvöld eru talin með, sem oft teljast með sem frídagar, fá starfsmenn frí í nokkra daga í viðbót.
Janúar:
- Nýársdagur (Nyårsdagen) 1. janúar
- Þrettándi dagur jóla (Trettondag jul) 6. janúar
Mars-apríl: páskar
- Föstudagurinn langi (Långfredagen)
- Páskadagur (Påskdagen) getur fyrst verið 22. mars og síðast 25. apríl
- Annar í páskum (Annandag påsk)
Apríl–júní:
- Uppstigningardagur (Kristi himmelfärdsdag) er 40 dögum eftir páskadag, alltaf á fimmtudegi, getur fyrst verið 30. apríl og síðast 3. júní.
Maí:
- Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins (Arbetarrörelsens internationella högtidsdag) 1. maí
Maí-júní: hvítasunna
- Hvítasunnudagur (Pingstdagen) er sjöundi sunnudagur eftir páska, getur fyrst verið 10. maí og síðast 13. júní.
Júní:
- Þjóðhátíðardagur Svía, 6. júní. Ef þjóðhátíðardagurinn fellur á helgi fá margir starfsmenn frí einn föstudag sem þeir geta tekið út síðar á árinu. Þetta fer eftir kjarasamningum. Það er ekki sjálfgefið að kjarasamningar gefi aukalegan frídag en oft er það svo.
- Miðsumarkvöld (Midsommarafton) er ekki helgidagur en margir fá frí á þessum degi samkvæmt samkomulagi á vinnustað eða samningi við vinnuveitanda. Miðsumarskvöld fellur alltaf á síðasta föstudagar mánaðarins.
- Miðsumarsdagur (Midsommardagen) er alltaf á laugardegi.
Október-nóvember:
- Allraheilagramessa (Alla helgons dag) er haldin hátíðleg laugardaginn milli 31. október og 6. nóvember.
Desember:
- Aðfangadagskvöld (Julafton), 24. desember, er ekki helgidagur en margir fá frí á þessum degi samkvæmt samkomulagi á vinnustað eða samningi við vinnuveitanda.
- Jóladagur (Juldagen) 25. desember
- Annar í jólum (Annandag jul) 26. desember
- Gamlárskvöld (Nyårsafton), 31. desember, ekki helgidagur en margir fá frí á þessum degi samkvæmt samkomulagi á vinnustað eða samningi við vinnuveitanda.
Hvað eru rauðir dagar í Svíþjóð?
Helgidagar eru almennt kallaðir rauðir dagar í Svíþjóð. Rauðir dagar eru sunnudagar og aðrir lögbundnir frídagar, svo sem vegna trúarhátíðar eða hefðar.
Auk þessara daga geta laugardagar og hátíðarkvöld einnig verið frídagar.
Hvað er „klämdag“ í Svíþjóð?
„Klämdag“ er dagur sem fellur milli tveggja frídaga, til dæmis helgidags og laugardags.
Stéttarfélög og einstakir vinnuveitendur geta komist að samkomulagi um að starfsfólk á tilteknum vinnustað fái frí á dögum sem falla milli frídaga. Á sumum vinnustöðum er gefið fullt frí en á öðrum má taka frí ef vinnuálag leyfir.
Ef þú ert í vafa um hvað gildir á þínum vinnustað skaltu hafa samband við trúnaðarmann stéttarfélagsins eða vinnuveitanda þinn.
Eru einhverjir lögbundnir lokunardagar í Svíþjóð?
Í Svíþjóð giltu lög um lögbundna lokunardaga (affärstidslag) til ársins 1972. Síðan þá hafa opnunartímar verið frjálsir.
Flestar verslanir eru opnar til kl. 21 og lokaðar á jóladag, nýársdag, páskadag, 1. maí, þjóðhátíðardaginn og miðsumarsdag. Engin lög banna þó verslunum að hafa opið.
Frekari upplýsingar um helgidaga og fánadaga í Svíþjóð
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.