Húsnæði á Grænlandi

Foto: Solnedgång, Suloraq, Nuuk, Grönland
Photographer
Mats Bjerde
Ert þú að hugleiða að flytja til Grænlands? Á grænlenskum húsnæðismarkaði er mikill skortur á húsnæði. Hér geturðu kynnt þér hvernig þú finnur húsnæði.

Erfitt er að komast inn á grænlenskan húsnæðismarkað þar sem mikill skortur er á húsnæði, einkum í stærri bæjum. Því er algengt að erlendum ríkisborgurum sem ráðnir eru til starfa á Grænlandi bjóðist starfsmannaíbúðir.

Starfsmannahúsnæði

Flytjir þú til Grænlands vegna nýs starfs geturðu haft heppnina með þér og fengið starfsmannahúsnæði gegnum vinnustaðinn. Starfsmannahúsnæði er mikilvægt til að laða vinnuafl til Nuuk en bið eftir opinberu leiguhúsnæði getið tekið 10–12 ár fyrir almenna húsnæðisleitendur.

Mörg einkarekin fyrirtæki eru með starfsmannahúsnæði fyrir starfsfólkið. Farir þú til starfa hjá sveitarfélagi eða Sjálfsstjórninni stendur þér til boða leiguhúsnæði hjá einhverju þeirra húsnæðisfélaga sem hafa umsjón með opinberu leiguhúsnæði á Grænlandi. Hafðu hugfast að þú missir húsnæðið þegar þú segir starfinu upp.

Ertu ekki með starfsmannahúsnæði?

Ef starfsmannahúsnæði er ekki innifalið í ráðningarsamningnum þarftu að leita út á almennan húsnæðismarkað. Þá leitarðu á netinu að fasteignamiðlurum í viðkomandi bæ. Þeir sjá um stóran hluta leiguhúsnæðis í einkaeign. Þá geturðu litið í vikublöð sem gefin eru út í viðkomandi bæ eða á miðlægar tilkynningatöflur í bænum/byggðarlaginu. Ræddu við starfsfélaga þína og biddu vini um að leita fyrir þig á Facebook sem er mjög útbreiddur samskiptamiðill á Grænlandi. Ætlir þú að flytja til Nuuk er meðal annars hægt að spyrjast fyrir í þessum opna hópi á Facebook: Bolig søges/udlejes Nuuk/Nuussuaq/Qinngorput.

Bráðabirgðahúsnæði

Hafir þú ráðið þig til starfa hjá Sjálfsstjórninni eða sveitarfélagi er líklegt að þú byrjir Grænlandsdvölina í bráðabirgðahúsnæði enda langur biðtími eftir leiguhúsnæði í stærri bæjum. Það þýðir að þú færð húsnæði til bráðabirgða þar til þú færð fast húsnæði. Bráðabirgðahúsnæðinu fylgja húsgögn.

Í bráðabirgðahúsnæði er ekki greidd húsaleiga. Þess í stað eru íbúarnir skattlagðir.

Fast leiguhúsnæði

Húsnæðisfélagið INI A/S hefur umsjón með flestu opinberu húsnæði. ó hefur húsnæðisfélagið Iserit Kommuneqarfit umsjón með húsnæði í Sermersooq (opinberu húsnæði í Nuuk, Paamiut, Ittoqortormiit og Tasiilaq). Einkarekið fyrirtæki, Agerskov Consulting, hefur umsjón með húsnæði í Nuuk fyrir húsnæðisfélagið Illuut. Atvinnurekandinn tekur frumkvæði að því að hafa samband við húsnæðisfélag.

Stærð fjölskyldunnar hefur áhrif á stærð húsnæðisins. Fjögurra manna fjölskyldu býðst yfirleitt fjögurra herbergja íbúð. Í stærri bæjum, einkum Nuuk, eru biðlistar langir og því verður fólk að þiggja það húsnæði sem býðst. Þó er hægt að skrá sig á lista þar sem óskað er eftir flutningi.

Eignar- og búseturéttarhúsnæði á Grænlandi

Húsnæði í einkaeigu hefur fjölgað á Grænlandi eftir að Landsþingið samþykkti hvata fyrir einkarekinn húsnæðismarkað sem fólust í góðum lánakjörum og kerfi sem gerir leigjendum í opinberu húsnæði kleift að kaupa húsnæðið.

Allir lögaðilar og einstaklingar geta keypt sér fasteign á Grænlandi. Hafa ber hugfast að búseturéttarhúsnæði fylgir búsetuskylda.

Lóðaúthlutun

Á Grænlandi á fólk ekki lóðina sem húsnæði er reist á.

Borgarar, einstaklingar, búseturéttarfélög eða fyrirtæki geta fengið afnotarétt af lóð þar sem t.a.m. er fyrirhugað að byggja hús. Sækja skal um lóðarúthlutun til að fá afnotarétt af þeirri lóð sem óskað er eftir.

Sækja skal um lóðarúthlutun ef ætlunin er að:

  • byggja hús eða önnur mannvirki
  • kaupa hús – eftir kaupin skal sækja um lóðarúthlutun
  • byggja við hús sem fyrir er
  • breyta notkun húsnæðis, t.d. úr verslun í íbúðarhúsnæði
  • leggja vatns- eða skólpleiðslur
  • setja upp gervihnattardisk á lóðinni
  • leggja bílastæði
  • byggja kofa á opnu svæði
  • koma fyrir t.d. gámi eða bát

Sótt er um lóðarúthlutun hjá sveitarfélaginu:

Leitaðu á vefsvæði NunaGIS, sem geymir stafrænt kort af öllu Grænlandi. Á NunaGIS er að finna leiðbeiningar um hvernig sótt er um lóðarúthlutun.

Einnig er hægt að hafa samband við þjónustumiðstöð eða bæjarskrifstofu og fá leiðbeiningar þar.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna