Kaup á vörum og þjónustu á Íslandi

Við búsetu á Íslandi í lengri eða skemmri tíma er nauðsynlegt að vera með íslenska kennitölu. Hún er meðal annars notuð þegar skrifað er undir þjónustusamninga við fyrirtæki, til dæmis símafyrirtæki og við opnun bankareiknings . Kennitala fæst með því að skrá aðsetur eða lögheimili hjá Þjóðskrá.
Rétt er að hafa í huga að Ísland tilheyrir ekki Evrópusambandinu og því er ekki tollfrelsi milli Evrópulanda og Íslands. Þannig þarf til að mynda að greiða toll af vörum sem keyptar eru frá Norðurlöndum.
Útvarps- og sjónvarpsáskrift
Útvarpsgjald er sérstakt gjald sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda. Það leggst jafnt á alla einstaklinga óháð tekjum eða eignum. Útvarpsgjaldið er greitt árlega og rennur það til ríkisins. Undanþegnir gjaldinu eru þeir sem eru 70 ára og eldri, svo og elli- örorkulífeyrisþegar sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Farsímaáskrift
Unnt er að kaupa símakort fyrir farsíma sem er með inneign sem hlaðin er handvirkt. Ekki þarf kennitölu fyrir þá tegund símakorta. Til að skrá farsíma í áskrift þarf viðkomandi að vera með íslenska kennitölu.
Rafmagn, vatn og hiti
Heitt og kalt vatn ásamt rafmagni eiga að vera til staðar í öllu íbúðarhúsnæði og er húsnæði á Íslandi hitað upp með heitu vatni eða rafmagni.
Skrifstofur sveitarfélaga geta gefið upplýsingar um fyrirtæki sem selja rafmagn og heitt vatn í viðkomandi sveitarfélagi.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.