Ökuskírteini á Íslandi

Førerkort i Norge
Hér getur þú lesið um ökuskírteini á Íslandi, hvaða ökuskírteini eru gild og hvernig þú getur fengið og endurnýjað ökuskírteini á Íslandi.

Ökuskírteini á Íslandi

Samkvæmt 58.grein umferðarlaga má enginn stjórna bifreið eða bifhjóli nema hafa til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjóri gefur út. 

Sýslumenn annast útgáfu ökuskírteina í umboði ríkislögreglustjóra. 

Útgáfa ökuskírteina

Sýslumaður gefur út ökuskírteini að lokinni könnun á því hvort skilyrðum til útgáfunnar sé fullnægt. Í ökuskírteini skulu meðal annars skráðar upplýsingar um réttindaflokk handhafa skírteinis og viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir er varða handhafa þess.
Gildistími ökuskírteina er annars vegar til bráðabirgða og hins vegar til 15 ára.

Bráðabirgðaskírteini

Bráðabirgðaskírteini eru gefin út til byrjanda og gilda til þriggja ára frá útgáfudegi. Önnur ökuskírteini eru gefin út til 15 ára eftir flokkum ökuskírteina og aldri umsækjanda.

Fullnaðarskírteini

Fullnaðarskírteini fyrir flokkana A, B og BE (ökuskírteini til að aka fólksbifreiðum) eru gefin út til 15 ára.

Fullnaðarskírteini fyrir flokkana C, CE, D og DE og til farþegaflutninga í atvinnuskyni (aukin ökuréttindi – meirapróf) eru gefin út til fimm ára. Að liðnum gildistíma slíkra skírteina halda þau gildi sínu að því er varðar rétt til að aka fólksbifreið.

Skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis

Almenn skilyrði fyrir útgáfu nýs ökuskírteinis eru:

  • Umsækjandi fullnægi aldursskilyrði fyrir viðkomandi flokk ökutækja.
  • Umsækjandi sjái og heyri nægilega vel og sé að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega.
  • Umsækjandi hafi hlotið kennslu löggilts ökukennara og sannað með prófi að hann hafi næga aksturshæfni og nauðsynlega þekkingu á ökutækinu og umferðarlöggjöf.
  • Umsækjandi hafi fasta búsetu hér á landi. 

Ökunám

Umsækjandi um ökuskírteini fyrir flokk sem hann hefur ekki áður haft ökuskírteini fyrir skal hafa hlotið kennslu ökukennara sem hefur löggildingu fyrir þann flokk. Kennsla skal fara fram í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa setur, um ökunám fyrir hlutaðeigandi flokk. Heimilt er að hefja ökunám 12 mánuðum áður en nemandi hefur aldur til fyrir B-réttindi.

Æfingaakstur með leiðbeinanda

Nemanda er heimilt að æfa akstur bifreiðar með leiðbeinanda í stað ökukennara, enda hafi nemandinn hlotið lágmarksþjálfun og leiðbeinandinn hafi fengið til þess leyfi sýslumanns. Áður en æfingaakstur er heimilaður þarf nemandi að sækja um ökuskírteini (námsheimild). 

Engum má veita leyfi sem leiðbeinanda nema hann:

  • Hafi náð 24 ára aldri.
  • Hafi gild ökuréttindi til að stjórna þeim flokki ökutækja sem æfa á akstur með og hafi a.m.k. 5 ára reynslu af slíku ökutæki.
  • Hafi ekki á sl. 12 mánuðum verið án ökuskírteinis vegna ökuleyfissviptingar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti.

Sækja skal um heimild til æfingaaksturs til sýslumanns. Umsókninni skal fylgja vottorð ökukennara um að nemandi hafi öðlast nægilega þekkingu á umferðarreglum og þjálfun í meðferð og stjórnun ökutækis. Sýslumaður gefur út æfingaakstursleyfi á nafn nemanda og leiðbeinanda til allt að 18 mánaða.

Bifreiðar sem notaðar eru til æfingaaksturs skulu auðkenndar með þar til gerðu merki með áletruninni æfingaakstur. Athugið að leiðbeinandi telst stjórnandi bifreiðar við æfingaakstur.

Ökupróf

Ökupróf getur ekki farið fram fyrr en nemandi hefur fengið próftökuheimild sýslumanns og ökukennari hefur staðfest skriflega að fullnægjandi ökunám hafi farið fram.

Ökupróf skiptist í tvo hluta, fræðilegt próf (skriflegt) og verklegt próf. Verklega prófið er tvíþætt; munnlegt próf og verklegt próf. Verklegt próf fer ekki fram fyrr en að stöðnu fræðilegu prófi. Fræðilega prófið má ekki fara fram fyrr en tveimur mánuðum áður en umsækjandi fullnægir aldursskilyrði til að fá útgefin ökuréttindi, en verklegt próf ekki fyrr en tveimur vikum áður en umsækjandi fullnægir aldursskilyrði.

Skipti á erlendum ökuskírteinum í samsvarandi íslenskt ökuskírteini

Umsókn um erlent ökuskírteini í samsvarandi íslenskt ökuskírteini má afhenda sýslumanni, óháð því hvar umsækjandi hefur búsetu, enda hafi hann fasta búsetu hér á landi.

Gefa má út íslenskt ökuskírteini í stað gilds erlends ökuskírteinis. Handhafar ökuskírteina sem gefin eru út í ríkjum sem ekki eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þurfa að taka bóklegt B próf og verklegt próf fyrir hvern ökuréttindaflokk sem umsóknin varðar.

Skilyrði fyrir erlenda ríkisborgara

Auk almennra skilyrða sem uppfylla þarf til að fá útgefið ökuskírteini þurfa eftirtalin skilyrði að vera uppfyllt þegar erlendir ríkisborgarar eiga í hlut:

  1. Að þeir uppfylli búsetuskilyrði
  2. Að staðfest sé að þeir hafi gild ökuréttindi í heimaríki

Alþjóðlegt ökuskírteini

Sýslumenn og Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB., hafa heimild til að gefa út alþjóðlegt ökuskírteini.

Alþjóðlegt ökuskírteini má gefa út til þess sem hefur gilt íslenskt ökuskírteini og er orðinn 18 ára. Skírteinið gildir í ár frá útgáfudegi þess og tekur einungis til ökutækja sem hlutaðeigandi hefur rétt til að stjórna samkvæmt hinu íslenska ökuskírteini.

Alþjóðlegt ökuskírteini veitir ekki rétt til að stjórna ökutæki hér á landi.

Stafrænt ökuskírteini

Stafrænt ökuskírteini er fyrir alla sem hafa ökuréttindi og eru með snjallsíma. Skírteinið sannar að viðkomandi er með gilt ökuskírteini og á því koma fram sömu upplýsingar og á hefðbundnum ökuskírteinum.

Stafræn ökuskírteini gilda bara á Íslandi.

Stafrænt ökuskírteini gildir til að sanna ökuréttindi fyrir lögreglu.

Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

Nánari upplýsingar er að finna hjá embætti Sýslumanns. 

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna