Meðganga og fæðing á Íslandi

Mor med baby
Photographer
Yadid Levy
Hér má finna upplýsingar um mæðravernd og þjónustu í tengslum við fæðingu barns og fyrstu vikurnar í lífi þess.

Mæðravernd stendur öllum verðandi mæðrum/foreldrum til boða og sé kona sjúkratryggð á Íslandi er mæðraverndin henni að kostnaðarlausu.

Mæðraverndinni er sinnt á heilsugæslustöðvum fyrir þær konur sem eru heilbrigðar og lausar við alvarleg vandamál tengd meðgöngunni. Þegar um áhættumeðgöngu er að ræða sinnir kvennasvið Landspítalans - háskólasjúkrahúss og  kvennadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þjónustunni.

Mæðravernd og fæðingarhjálp telst ekki til bráðaveikinda og því gætu norrænir ríkisborgarar sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi lent í því að greiða sjálfir fyrir þjónustuna hér á landi.

Fyrsta skoðun í mæðravernd fer jafnan fram eftir átta til tólf vikna meðgöngu og miðað er við að konur fari í sjö til tíu skoðanir fram að fæðingu.

Verðandi mæðrum er boðið upp á ómskoðun á 11-14 viku gegn gjaldi og í kringum 20. viku, þá gjaldfrjálst.

Ljósmæður annast mæðraverndina í samvinnu við heilsugæslulækna og aðra sérfræðinga. Víða er boðið upp á námskeið fyrir verðandi foreldra gegn greiðslu til dæmis í fæðingarundirbúningi og brjóstagjöf.

Upplýsingar um heilsugæslustöðvar landsins má finna á heimasíðum Velferðaráðuneytisins og heilsugæslu höfuðborgasvæðisins. 

Fæðingin

Ekkert gjald er tekið fyrir fæðingar svo lengi sem móðirin er sjúkratryggð Íslandi.

Ljósmæður í mæðravernd veita upplýsingar um mögulega fæðingarstaði en misjafnt er eftir landshlutum hvernig þjónustunni er hagað.

Konum er frjálst að velja á hvaða sjúkrahúsi þær fæða börn sín. Þau skilyrði eru þó sett á nokkrum minni sjúkrahúsum og í heimafæðingum að meðgangan hafi verið eðlileg.

Kjósi verðandi móðir að fæða barn sitt í heimahúsi ber henni að leita upplýsinga um tilhögun heimafæðinga hjá ljósmóður. Móðir sem fæðir í heimahúsi á rétt á sjúkradagpeningum í tíu daga frá fæðingu barns.

Eftir fæðingu er sængurlega mislöng, frá sex klukkustundum upp í nokkra sólarhringa, allt eftir eðli fæðingar.

Heimaþjónusta ljósmæðra

Öllum konum sem eiga að baki eðlilega meðgöngu og fæðingu gefst kostur á að fara heim frá sex til 36 klukkustundum frá fæðingu barns. Eiga þær þá rétt á heimaþjónustu sem felur í sér að ljóðsmóðir vitjar móður og barns fyrstu dagana eftir útskrift frá fæðingarstað. Umfang þjónustunnar miðast við heilsufar og þarfir fjölskyldunnar.

Þessi heimaþjónusta ljósmæðra er þó aðeins mismunandi eftir byggðarlögum og er verðandi mæðrum/foreldrum ráðlagt að afla sér upplýsinga um þessa þjónustu í sínu byggðarlagi.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir heimaþjónustuna að fullu fyrir sjúkratryggðar konur og veitir nánari upplýsingar.

Fæðingartilkynning er send á þá heilsugæslustöð sem næst er heimili barnsins skömmu eftir fæðingu en það getur tekið mislangan tíma. Því er foreldrum ráðlagt að hafa samband við sína heilsugæslustöð fljótlega eftir að komið er heim af fæðingardeildinni og láta vita af fæðingunni. Boðið er upp á heimavitjanir frá hjúkrunarfræðingi fram að sex vikna aldri barns en eftir það fer ungbarnavernd fram á næstu heilsugæslustöð.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna