Caroline Henderson kynnir á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn

04.10.16 | Fréttir
Caroline Henderson
Ljósmyndari
Thomas Cato
Þann 1. nóvember verða hin fimm verðlaun Norðurlandaráðs afhent í tónleikahúsi DR í Kaupmannahöfn að viðstöddum forsætisráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, norrænum ráðherrum og þingmönnum, tilnefndum einstaklingum og handhöfum verðlauna Norðurlandaráðs frá fyrri árum.

Hin dansk-sænska söngkona Caroline Henderson verður kynnir á verðlaunaafhendingunni. Viðburðinum verður streymt á vef DR TV og mun upptakan verða aðgengileg þar áfram. DR býður einnig ríkisstöðvum hinna Norðurlandanna að sýna athöfnina í sinni dagskrá. Tónlistarstjóri kvöldsins er Nikolaj Hess, sem mun spila ásamt hljómsveit sinni. Við athöfnina verður fluttur nýr norrænn sálmur, saminn og útsettur af einum af handhöfum tónlistarverðlaunanna, Sunleif Rasmussen, en höfundur textans er Kim Leine, sem hlotið hefur bókmenntaverðlaunin. Verðlaunaafhendingin í tónleikahúsi DR hefst kl. 20:00 að dönskum tíma og munu verðlaunahafar síðasta árs, þeir Hákun Djurhuus, Svante Henryson¸ Dagur Kári og Jakob Wegelius ásamt Kim Leine sjá um að afhenda verðlaunin. Verðlaunahafarnir hljóta verðlaunastyttuna Nordlys og verðlaunafé að upphæð 350 þúsund danskar krónur.

Tilnefningar til:

Sjónvarpsstöðin DR K hitar upp fyrir verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs með „Norrænni viku“ í viku 43, en þá verða aðeins sýndar norrænar kvikmyndir og þættir á stöðinni. Kvöldið fyrir verðlaunaafhendinguna verður haldinn viðburður til heiðurs hinum tilnefndu í Den Sorte Diamant, þar sem þau munu lesa upphátt úr verkum sínum, og handhafi tónlistarverðlaunanna síðan í fyrra, Svante Henryson, mun leika tónlist.

Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs fer fram í tengslum við 68. þing ráðsins í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn.