Fimm nýir stjórnendur í Norrænu ráðherranefndinni

04.07.23 | Fréttir
alt=""
Photographer
norden.org
Norræna ráðherranefndin býður fimm nýja stjórnendur velkomna, en þeir munu ásamt núverandi stjórnendateymi og öðru starfsfólki vinna að Framtíðarsýn okkar 2030 – að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.

Það er ánægður og eftirvæntingarfullur framkvæmdastjóri sem býður í dag nýja norræna stjórnendur frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi velkomna í höfuðstöðvar Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Nýja starfsfólkið var valið úr stórum hópi hæfra umsækjenda frá öllum Norðurlöndunum.   

„Ég er einstaklega ánægð og ber miklar væntingar til okkar nýja norræna samstarfsfólks sem verður á næstu misserum hluti af norrænni fjölskyldu okkar. Velkomin, Ida, Dan, Unni, Peter og Inga. Um leið er ég svolítið angurvær er við kveðjum Jonas, Helle og Torfa með miklum þökkum fyrir alla þeirra orku og vinnu í Norrænu ráðherranefndinni,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Nýir norrænir stjórnendur

  • Ida Heimann Larsen – skrifstofustjóri.
    Ida hefur verið ráðin sem skrifstofustjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Ida starfaði áður sem deildarstjóri hagvaxtar- og loftlagsmálasviðs Norrænu ráðherranefndarinnar og þar áður var hún danskur fulltrúi í Norrænu samstarfsnefndinni.
  • Dan Koivulaakso – deildarstjóri hagvaxtar- og loftlagsmálasviðs.
    Dan starfaði áður sem aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra Finnlands. Þar vann hann meðal annars að stefnumótun og pólitískri leiðsögn, m.a. með áherslu á málefni ESB.
  • Unni Kløvstad – deildarstjóri sviðs jafnréttismála, alþjóðasamstarfs, náttúru og menningar.
    Unni starfaði áður hjá utanríkisráðuneyti Noregs, þar sem hún var deildarstjóri málefna hafsins og atvinnuþróunar.
  • Peter Cavala – deildarstjóri þekkingar- og velferðarsviðs.
    Peter hefur reynslu sem aðstoðarsamskiptastjóri sveitarfélagsins Kristianstad og stjórnandi samfélagsþróunar hjá héraðsstjórninni á Skáni. Þar bar Peter ábyrgð á stjórnunarskrifstofu sveitarfélaganna.
  • Inga Hanna Guðmundsdóttir, stjórnandi á mannauðs- og lagasviði.
    Inga var áður starfsmannastjóri hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), þar sem hún fékk mikla reynslu af mannauðsstjórnun, starfsmannatengslum og stefnumótun. 

Kærar þakkir og gangi ykkur vel 

Nýja starfsfólkið tekur við af Jonas Wendel, skrifstofustjóra, Torfa Jóhannessyni, sviðsstjóra jafnréttismála, alþjóðasamstarfs, náttúru og menningar, og Helle Glen Petersen, deildarstjóra þekkingar- og velferðarsviðs. Norræna ráðherranefndin þakkar þeim öllum fyrir störf sín og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.