Heimssýningin: Heilbrigðistækni fyrir alla

01.02.22 | Fréttir
Expo 2020
Ljósmyndari
Mikael Carboni Kelk
Til þess að allur almenningur geti átt aðild að stafrænum umskiptum þarf að fjárfesta í stafrænni þjónustu á sviði heilbrigðis- og félagsmála og sú þjónusta þarf einnig að ná til dreifðari byggða. Þetta var meginboðskapur Norðurlandanna á umræðufundi dagsins í sænska skálanum á Expo – Heimssýningunni.

Nú stendur yfir heilbrigðisvika á Expo – Heimssýningunni. Af því tilefni voru í dag kynntar í sænska skálanum niðurstöður verkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar: Sundhed og omsorg fra distancen (iVOPD) eða Fjarþjónusta á sviði heilbrigðismála og umönnunar.  

- iVOPD stuðlar að því að uppfylla markmið Framtíðarsýnar okkar 2030. „Ekki síst þegar kemur að metnaði okkar um samfélagslega sjálfbær og samkeppnishæf Norðurlönd,“ sagði Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í stafrænu ávarpi sínu til áheyrenda á Expo og þeirra sem fylgdust með á netinu. Kynning á niðurstöðum iVOPD var liður í tveggja daga dagskrá í sænska skálanum en þar er einnig fjallað um heimsfaraldurinn, sýklalyfjaónæmi og neyðarviðbúnað. Hennar hátign Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar setti heilbrigðisdagana og lagði við það tækifæri áherslu á heilbrigt líf fyrir alla.         

Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Norðurlöndum

Forsaga iVOPD verkefnisins er sú að á áveðnum svæðum á Norðurlöndum hefur lýðfræðileg samsetning íbúa breyst og sumir íbúar búa í strjálbýlum og afskekktum byggðum og hafa takmarkaðan aðgang að félags- og heilbrigðisþjónustu. Þetta varð kveikjan að því að sænska formennskan í Norrænu ráðherranefndinni ýtti verkefninu iVOPD úr vör árið 2018. Fjarheilbrigðisþjónustumiðstöðin Glesbygdsmedicinskt centrum stóð að framkvæmd verkefnisins í samstarfi við Norrænu velferðarmiðstöðina. Niðurstöður þess sýna með skýrum hætti fram á ávinning stafvæðingar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Verkefnastjórinn, Niclas Forsling frá Glesbygdsmedicinskt centrum, útskýrði þetta nánar á umræðufundi dagsins með sérfræðingum á sviði heilbrigðismála frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Norðurlöndum. 

 

Margir kostir fyrir einstaklinga og samfélagið

„Líta má á ávinninginn frá sjónarhorni einstaklinga en stafræn þjónusta gerir aðgang íbúa dreifðari byggða að heilbrigðisþjónustu að verulegu leyti sambærilegan við aðgang annarra borgara og eykur innsýn allra í eigin heilsu. Frá samfélagslegu sjónarhorni er ávinningurinn fjárhagslegur á svæðum þar sem langt er milli húsa. Þetta gæti til dæmis orðið til þess að laða nýtt fólk að byggðunum,“ sagði Niclas Forsling í umræðunum. Hann benti einnig á að stafvæðingin gagnaðist innviðum og drægi úr flutningum sem aftur minnkaði kolefnislosun. 

„Aðgerðir á sviði stafrænnar heilbrigðisþjónustu hafa þannig einnig góð áhrif á loftslagið,“ sagði Niclas Forsling.   

 

Nokkrir smellir á tölvunni í stað þess að aka sjúklingi marga kílómetra

Verkefnið varpar ljósi á margar góðar starfsvenjur og veitir innsýn frá ýmsum svæðum á Norðurlöndum. Dæmin snúa að því að leysa mál til dæmis þannig að læknir skoði sjúkling gegnum smell á tölvunni í stað þess að sjúklingnum sé ekið marga kílómetra. Eða tækni sem gefur aðstandendum tækifæri til daglegrar stafrænnar samveru við sjúkling í fjölskyldunni sem viðbót við hefðbundnar heimsóknir. 

„ Annað mikilvægt atriði er að stafvæðingin styrkir einnig vald og innsýn einstaklings í sína eigin heilsu,“ bendir verkefnastjórinn Bengt Andersson frá Norrænu velferðarmiðstöðinni á. Það byggir á að stafrænar lausnir geta einnig auðveldað fólki aðgengi að heilbrigðisgögnum, sem eykur möguleika þess á sjálfsákvörðunarrétti og veitir fólki það öryggi sem í því felst.