Stjórnsýsluhindranaráðið fær tvo nýja fulltrúa

31.01.24 | Fréttir
Bertel Haarder och Fredrik Karlström.
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org

Bertel Haarder frá Danmörku og Fredrik Karlström frá Álandseyjum eru nýir fulltrúar í Stjórnsýsluhindranaráðinu.

Tveir nýir fulltrúar hafa verið skipaðir í Stjórnsýsluhindranaráðið sem vinnur að því að greiða fyrir frjálsri för á milli Norðurlandanna. Bertel Haarder frá Danmörku og Fredrik Karlström frá Álandseyjum hafa verið skipaðir í ráðið. Báðir búa yfir mikilli reynslu af norrænu samstarfi.

Bertel Haarde er vel þekktur í norrænu samstarfi. Hann hefur tvisvar sinnum gegnt embætti forseta Norðurlandaráðs auk þess að gegna ráðherraembætti mörgum sinnum, meðal annars með ábyrgð á norrænum málefnum. Þá var Haarder formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2020.

Haarder er gamalreyndur í dönskum stjórnmálum. Hann var fyrst kosinn á danska þingið árið 1975 og hætti á þingi fyrir síðustu kosningar, árið 2022.

Morten Dahlin, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku, skipaði Bertel Haarder sem fulltrúa Danmerkur í Stjórnsýsluhindranaráðinu. Skipunin gildir frá 1. mars til 31. desember 2024. Haarder tekur sæti Annette Lind sem tekur við embætti aðalræðismanns í Flensborg þann 1. mars.

„Ég er mjög ánægður með að hafa verið skipaður. Ég brenn fyrir því norræna og það er allt of mikið um óþarfa stjórnsýsluhindranir á milli landa okkar, bæði stafrænar og í raunheimi,“ segir Bertel Haarder.

„Frjáls för örvar hagvöxt“

Fredrik Karlström hefur einnig mikla reynslu af stjórnmálum og hefur unnið mikið að norrænum málefnum. Hann er fyrrverandi atvinnumálaráðherra á Álandseyjum og hefur átt sæti á lögþingi Álandseyja síðan 2003. Hann hefur tvisvar sinnum gegnt ráðherraembætti og margsinnis tekið þátt í norrænum ráðherrafundum auk þess að hafa átt sæti í landsdeild Álandseyja í Norðurlandaráði 2007–2011.

Frjáls för og vinnan að afnámi stjórnsýsluhindrana eru honum hjartans mál.

„Það er mér mikill heiður að fá að halda áfram að vinna á norrænum vettvangi í Stjórnsýsluhindranaráðinu. Ég hef metnað til þess að raungera framtíðarsýnina um frjálsa för á Norðurlöndum fyrir alla Norðurlandabúa. Með því að takast markvisst á við stjórnsýsluhindranir og lágmarka þær stuðlum við að aukni frelsi og tækifærum fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki. Þetta stuðlar ekki einungis að samþættara svæði heldur er þetta lykilatriði í því að ýta undir samstöðu, örva hagvöxt og viðhalda hinu einstaka norræna velferðarlíkani,“ segir Fredrik Karlström.

Stjórnsýsluhindranaráðið er áháð nefnd sem stjórnvöld landanna hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.

Ráðið skipa tíu fulltrúar frá öllum norrænu löndunum ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar situr einnig í ráðinu og einn fulltrúi Norðurlandaráðs.

Störf Stjórnsýsluhindranaráðsins eiga að stuðla að því að framtíðarsýn forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims 2030 verði að veruleika.