Hvaða norrænu sveitarfélög eru í fararbroddi í sjálfbærri þróun?

30.01.18 | Fréttir
Mennesker ved bro
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Hvarvetna á Norðurlöndum vinna sveitarfélög að því að framfylgja heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Norræna ráðherranefndin stendur að kortlagningu á sveitarfélögum sem vinna gagngert að sjálfbærri þróun, og er hún liður í miðlun þekkingar yfir landamærin.

Öll ríki Norðurlanda hafa skuldbundið sig til að innleiða Dagskrá 2030 með hinum sautján markmiðum um sjálfbæra þróun en markmiðið er að efla efnahagslega, vistfræðilega og samfélagslega sjálfbærni um allan heim.

Norræna ráðherranefndin styður aðgerðir landanna með sérstakri áætlun um sjálfbæra þróun, 2030-kynslóðin, en hún felst meðal annars í þekkingarmiðlun, greiningum og markvissum aðgerðum til að auka áhrif starfsins að Dagskrá 2030 á Norðurlöndum.

„Það er mikilvægt að Norræna ráðherranefndin en einnig stjórnvöld á Norðurlöndum viti hvernig sveitarfélögin vinna með sjálfbæra þróun. Kortlagningin á að leiða í ljós hvar sveitarfélögin þurfa á aðstoð að halda og hvernig stjórnvöld og ráðherranefndin geta stutt sveitarfélögin í sjálfbærnistarfinu,“ segir Nora Sánchez Gassen, verkefnisstjóri hjá Nordregio, rannsóknastofnun ráðherranefndarinnar á sviði byggða- og skipulagsmála sem annast verkefnið.

„Miðlun þekkingar milli norrænna sveitarfélaga getur stuðlað að markvissari aðgerðum í starfinu að Dagskrá 2030 á Norðurlöndum. Það er einnig hvetjandi fyrir sveitarfélögin að fá tækifæri til að sýna hvernig þau vinna með heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun,“ segir Nora Sánchez Gassen.

Nordregio heldur námsstefnu 9. maí í Stokkhólmi um hvernig best er að vinna staðbundið að því að framfylgja sjálfbærnimarkmiðunum. Námsstefnan á að greiða fyrir þekkingarmiðlun og samstarfi milli sveitarfélaga. Á komandi sumri verður tekinn saman bæklingur með góðum dæmum og reynslu.