Kynnist norrænum tónlistarstjörnum í nýrri röð viðtala!

27.10.21 | Fréttir
Nominerade Nordiska rådets musikpris 2021
Photographer
norden.org
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent 2. nóvember og nú er hægt að kynnast hinu tilnefnda tónlistarfólki betur í nýrri röð viðtala. Viðtalaröðin veitir einstakt tækifæri til að komast í návígi við hinar öflugu söngraddir, snilldarhljóðfæraleikara, skapandi hæfileikafólk og heimsþekktu stjörnur sem átt hafa þátt í því að koma Norðurlöndum á tónlistarheimskortið.

Í hinni nýju viðtalaröð getur þú hitt þá 13 tónlistarmenn og hópa sem hlotið hafa tilnefningu til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021. Tilnefningar ársins endurspegla breitt svið norrænnar tónlistar – allt frá óperu, sígildri tónlist, djassi og þjóðlagatónlist til „house“- og popptónlistar. Hér segja þau meðal annars frá einstökum tónlistarupplifunum, uppsprettum innblásturs og framtíðaráformum sínum.
 

„Sögur og raddir skapa rými í ímyndunarafli okkar og veita okkur þrívíðar upplifanir. Bæði fyrir augu, heila og hjarta,“ segir Else Torp, meðlimur í Theatre of Voices sem er einn þekktasti sönghópur í heimi.

Ekki missa af þínu eftirlætistónlistarfólki

Viðtölunum verður deilt jafnóðum á Facebook og YouTube frá 26. október. Hild Borchgrevink tónlistarfræðingur, höfundur og fyrrum meðlimur í dómnefnd tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs tók viðtölin. Hild Borchgrevink segir:

 „Viðtölin eru afar áhugaverð að mínu mati og ég er ánægð með hvað þau voru öll opin og gáfu mikið af sér. Það gerir áhorfendum kleift að uppgötva tónlist frá ýmsum kimum Norðurlanda og komast í návígi við þessar stórkostlegu manneskjur og listafólk.“

 

 

Viðtölin voru tekin á skandinavísku og ensku og eru textuð.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1965 og þeim er ætlað að heiðra skapandi starf í sviðstónlist af miklum listrænum gæðum. Annað hvert ár eru verðlaunin veitt núlifandi tónskáldi og annað hvert ár – eins og í ár – eru þau veitt tónlistarmanni eða tónlistarhóp.  
 

Handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs verður kynntur um leið og handhafar annarra verðlauna Norðurlandaráðs þann 2. nóvember í Kaupmannahöfn. 

Viðtöl

Horfið á valin viðtöl hér: