Verðlaunaveiting Norðurlandaráðs í beinni útsendingu frá Kaupmannahöfn 2. nóvember

19.10.21 | Fréttir
Det Kongelige Teaters Skuespilhus
Photographer
Det Kongelige Teater
2. nóvember verða verðlaun Norðurlandaráðs afhent á verðlaunahátíð í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn. Leikarinn Jakob Oftebro stýrir dagskránni og verðlaun kvöldsins verða afhent af Maríu krónprinsessu Danmerkur, David Dencik leikara, Selinu Juul sem er fyrrum handhafi umhverfisverðlaunanna, tónskáldinu Phillip Faber og formönnum landsstjórna Grænlands og Færeyja, Múte B. Egede og Bárði á Steig Nielsen.

Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til þess að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála. Eftir ár félagsforðunar og fjarfunda býður danska landsdeildin í Norðurlandaráði til verðlaunaafhendingar í Kaupmannahöfn.

„Dagurinn þegar við afhendum verðlaun Norðurlandaráðs frammi fyrir norrænum áhorfendum verður hátíðlegur, en þetta verður í fyrsta skipti í eitt og hálft ár sem við getum hist á sama stað, nú í nýju húsnæði Konunglega leikhússins – Skuespilhuset við sjóinn. Við fáum að hlíða á fallega tónlist og fjöldasöng og allir Norðurlandabúar geta fylgst með í sjónvarpi er við kynnum og hyllum verðlaunahafana,“ segir Bertel Haarder, forseti Norðurlandaráðs.

Einstök framlög til menningar og umhverfis

54 verk, verkefni og listamenn frá öllum norrænu löndunum eru tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs árið 2021 fyrir umhverfismál, tónlist, kvikmyndir, bókmenntir og barna- og unglingabókmenntir. Á meðal þeirra eru skáldsögur, smásögur, myndasögur og framtíðarsögur, heimildarmyndir og leiknar myndir, söngvarar, trompetleikari, píanóleikari og plötusnúðahópur, sem og verkefni um endurnýjun í landbúnaði, gróðurhús á Grænlandi og gagnagrunn utan um kolefnisfótspor matvæla.

Hennar hátign María krónprinsessa afhendir barna- og unglingabókaverðlaunin

Verðlaunahafar sem kynntir verða á sviðinu 2. nóvember hljóta að launum verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur. Þessi afhenda verðlaunin í ár:

  • Hennar hátign María krónprinsessa Danmerkur afhendir barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021
  • Selina Juul, aðgerðarsinni á sviði matvælasóunar, afhendir umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2021
  • James Bond-leikarinn David Dencik afhendir kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2021
  • Phillip Faber, hljómsveitarstjóri og tónskáld, afhendir tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2021
  • Múte B. Egede og Bárður á Steig Nielsen, formenn landsstjórna Grænlands og Færeyja, afhenda bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021

Popp, djass og samsöngur

Fjölbreytt tónlistaratriði verða einnig á dagskrá kvöldsins og kynnir er leikarinn Jakob Oftebro. Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru söngkonan Tina Dickow ásamt kórnum Vocal Line, Mathias Heise Trio og tónlistarmaðurinn Helgi Jónsson. Einnig verður fjöldasöngur áður en kvöldinu lýkur með atriði stúlknakórs danska ríkisútvarpsins.

„Menningin leikur viðamikinn þátt í að binda saman norrænu löndin. Spennandi bók, dramatísk kvikmynd, hjartnæmt lag eða sjálfbær hugmynd sem vekur forvitni okkar og kveikir þorsta í frekari þekkingu og upplifanir þvert á landamæri Norðurlanda. Hinn 2. nóvember beinum við sjónum að listafólki og frumkvöðlum sem lagt hafa eitthvað sérstakt af mörkum til að efla norræn menningartengsl. Sem menningarmiðlun er DR stolt af því að fá að sameina Norðurlönd þetta kvöld með skemmtidagskrá í öllum löndunum,“ segir Henrik Bo Nielsen, yfirmaður menningarmála og málefna barna og ungmenna hjá DR.

Horfðu á beina útsending frá verðlaunaafhendingunni 2. nóvember!

Útsendingin í Skuespilhuset hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á DR2 og vefsvæðinu www.dr.dk alls staðar á Norðurlöndum. Verðlaunahátíðin, sem framleidd er af danska ríkissjónvarpinu, verður einnig í beinni útsendingu á öðrum norrænum ríkissjónvarpsstöðvum. Sjá nánari upplýsingar í sjónvarpsdagskrá hvers lands.

Um verðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaun Norðurlandaráðs eru ein virtustu verðlaun sem veitt eru á Norðurlöndum. Bókmenntaverðlaunin eru elst verðlaunanna fimm. Þau voru veitt í fyrsta sinn árið 1962. Á eftir þeim fylgdu tónlistarverðlaunin, umhverfisverðlaunin, kvikmyndaverðlaunin og barna- og unglingabókmenntaverðlaunin. Fimm dómnefndir sjá um að tilnefna verk og útnefna verðlaunahafana.


Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í tengslum við 73. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þar sem þingmenn, ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn frá öllum Norðurlöndunum koma saman og ræða stjórnmál og stefnumótun.

Fyrir fjölmiðla

Verðlaun Norðurlandaráðs 2021 verða afhent 2. nóvember klukkan 19.00 að íslenskum tíma í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn. Strax að athöfn lokinni verður hægt að taka myndir og viðtöl við verðlaunahafana. Eingöngu þeir blaðamenn sem skráðir eru á þing Norðurlandaráðs eiga tækifæri á að verða viðstaddir verðlaunaafhendinguna. Blaðamenn þurfa að skrá sig í síðasta lagi 27. október kl. 15.00 að dönskum tíma. Gilds blaðamannaskírteinis er krafist.