Hennar konunglega hátign Mary krónprinsessa afhendir verðlaun á norrænni verðlaunahátíð

21.10.21 | Fréttir
Kronprinsessan Mary
Photographer
Stine Heilmann
Hennar konunglega hátign Mary krónprinsessa Danmerkur afhendir barna- og unglingabókmenntaverðlaunin 2021 á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs þann 2. nóvember í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn. Þeirra konunglegu hátignir Friðrik krónprins og Mary krónprinsessa taka bæði þátt í viðburðinum, sem hægt verður að fylgjast með í beinni útsendingu í öllum norrænu löndunum.

2. nóvember verða hin fimm verðlaun Norðurlandaráðs veitt í beinni útsendingu á verðlaunahátíð í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn. Landsdeild Danmerkur í Norðurlandaráði gegnir hlutverki gestgjafa á verðlaunahátíðinni í ár og umsjón með dagskránni hefur leikarinn Jakob Oftebro. 

Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni eru söngkonan Tina Dickow, kórinn Vocal Line, Helgi Jónsson, Mathias Heise Trio og stúlknakór DR.

Önnur verðlaun kvöldsins verða afhent af David Dencik leikara, Selinu Juul sem er fyrrum handhafi umhverfisverðlaunanna, tónskáldinu Phillip Faber og formönnum landsstjórna Grænlands og Færeyja, þeim Múte B. Egede og Bárði á Steig Nielsen. 

Hægt að fylgjast með verðlaunaafhendingunni á öllum Norðurlöndum

Hægt verður að fylgjast með því í beinni útsendingu um gervöll Norðurlönd þegar handhafar verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir, kvikmyndir, bókmenntir, umhverfismál og tónlist verða kynntir.

Útsendingin frá verðlaunahátíðinni, sem framleidd er af DR í Danmörku, verður klukkan 20:00 (að dönskum tíma) á DR 2 og hægt verður að fylgjast með henni á slóðinni www.dr.dk í öllum norrænu löndunum. NRK, SVT og Svenska Yle sýna einnig beint frá viðburðinum og RÚV sýnir verðlaunaafhendinguna þann 3. nóvember. Sjá nánari upplýsingar í sjónvarpsdagskrá hvers lands.

 

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í tengslum við 73. þing Norðurlandaráðs sem fram fer í Kaupmannahöfn 1.–4. nóvember.

Tengiliður fjölmiðla:

Norðurlandaráð, Elisabet Skylare, +45 21 71 71 27 , elisky@norden.org

Samskiptasvið í Kongehuset, Frederik Linde, fnl@kongehuset.dk