Nordplus opnar á að veita styrki til úkraínskra námsmanna
Áður var það formlegt skilyrði til að eiga möguleika á styrk að stunda nám sem leiðir til prófgráðu við háskóla sem er aðili að Nordplus-neti.
Nú munu úkraínskir námsmenn sem fengið hafa tímabundna námsvist við slíka háskóla einnig eiga kost á styrkjum. Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er ánægð með að hratt hafi gengið að finna lausnir sem koma ungu fólki í aðkallandi stöðu til góða.
„Stríðið í Úkraínu skapar neyð á mörgum sviðum. Það bitnar líka á ungu fólki sem er á miðjum námsferli. Það er mikilvægt fyrir Norrænu ráðherranefndina að geta lagt sín lóð á vogarskálarnar eftir þeim leiðum sem okkur eru færar. Von okkar er sú að þetta stuðli að því að úkraínskir námsmenn neyðist ekki til að hætta námi en geti haldið því áfram, sjálfum sér og heimalandi til heilla,“ segir Paula Lehtomäki.
Fjárveiting til styrkjakerfis Nordplus vegna æðri menntunar er u.þ.b. 30 milljónir danskra króna. Árlega eru veittir styrkir til um 2200 námsmanna frá 250 háskólum á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.