Menntun í sjálfbærni mikilvæg á öllum skólastigum

17.05.23 | Fréttir
Toppmøte om utdanning i Reykjavik
Photographer
Sigurjón Ragnar / norden.org
Áhugi á sjálfbærnimálum, ekki síst meðal barna og ungs fólks, skiptir miklu máli þegar kemur að því að byggja upp trú á framtíðina. Niðurstaða norrænu menntamálaráðherranna og formanna norrænna kennarasamtaka þegar þeir komu saman til að ræða hlutverk menntunar í tengslum við sjálfbærni var sú að sjálfbærnimenntun sé mikilvæg á öllum skólastigum.

Hvernig getum við aukið vitund um sjálfbærni hjá börnum og ungu fólki á öllum skólastigum og hvernig er hægt að vinna með skólunum að því að ná sjálfbærnimarkmiðum? Þessum spurningum var velt upp á fundi á vegum ríkisstjórnar Íslands og Samstarfssamtaka norrænna kennarasamtaka (NLS) á fundi í Reykjavík þann 3. maí.

Þetta var í fyrsta sinn sem menntamálaráðherrar Norðurlanda og formenn norrænna kennarasamtaka hittust á sameiginlegum fundi. Norrænt samráð og samstarf er mjög mikils virði því saman erum við sterkari.

„Við getum talað um norrænt líkan á sviði menntamála sem byggist á trausti, þekkingu og getu til gagnrýninnar hugsunar. Þetta er nokkuð sem þarf að leggja rækt við og ekki er hægt að ganga að sem vísu. Norðurlönd geta og eiga að vinna saman og standa saman á þessu sviði,“ segir Christer Holmlund, framkvæmdastjóri Samstarfssamtaka norrænna kennarasamtaka (NLS).

Þetta er nokkuð sem þarf að leggja rækt við og ekki er hægt að ganga að sem vísu. Norðurlönd geta og eiga að vinna saman og standa saman á þessu sviði.

Christer Holmlund, framkvæmdastjóri Samstarfssamtaka norrænna kennarasamtaka

Þörf á meiri menntun á sviði sjálfbærrar þróunar

Það er mikilvægt að börn og ungt fólk læri um mikilvægi sjálfbærni og um það hvernig þau geta haft áhrif á umhverfi sitt og heiminn. Á öllum Norðurlöndum eru markmið og hæfniviðmið varðandi sjálfbæra þróun nú þegar bundin í námskrár.

Víðtæk samstaða er um markmið og mikilvægi menntunar á sviði sjálfbærni allt frá leikskóla til æðri menntunar og símenntunar. Það kallar hins vegar á að grundvallarskilyrði fyrir góðri kennslu séu uppfyllt.

Eins og er stendur skólakerfið frammi fyrir áskorunum sem hafa áhrif á það hversu ítarlega er hægt að fjalla um sjálfbæra þróun og samþætta hana ólíkum námsgreinum. Áskoranir á borð við kennaraskort, skert tækifæri kennara til símenntunar og óánægju á meðal barna og ungmenna voru nefndar.

Kennarar voru sagðir þurfa aukinn stuðning og úrræði og að jafnframt þyrftu fleiri að læra til kennara og kennurum að bjóðast símenntun. Þarna getur norrænt samráð og samstarf skipt sköpum.

„Menntun er lykillinn að því að virkja það sem í börnunum býr og búa þau undir áskoranir framtíðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram norrænu samráði og samstarfi allra viðkomandi aðila til að efla kennara og þeirra ómetanlega framlag þegar kemur að því að móta framtíð barnanna okkar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra Íslands.

Menntun er lykillinn að því að virkja það sem í börnunum býr og búa þau undir áskoranir framtíðarinnar.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra Íslands

Byggja þarf upp trú á framtíðina

Í veröld þar sem áhyggjur og kvíði vegna þróunar mála í heiminum hefur náð fótfestu skiptir gríðarlegu máli að styrkja trú barna og ungmenna á framtíðinni, og þar með einnig áhuga þeirra á sjálfbærri þróun. Saman erum við sterk og getum betur samþætt sjónarmið sjálfbærrar þróunar í menntunina. Börn og ungmenni eru framtíð Norðurlanda og heimsins.

„Ég vona að þetta hafi bara verið upphafið að fallegri vináttu þar sem við vinnum saman að því að byggja upp norræna trú á framtíðina með sjálfbærri þróun fyrir allar núlifandi og komandi kynslóðir,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.

 

Ég vona að þetta hafi bara verið upphafið að fallegri vináttu þar sem við vinnum saman að því að byggja upp norræna trú á framtíðina með sjálfbærri þróun fyrir allar núlifandi og komandi kynslóðir.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands