Tungumál er lykillinn að samfélaginu og samfélagið er lykillinn að tungumálinu!

04.05.23 | Fréttir
MR-U i Harpa, Reykjavik
Photographer
norden.org / Sigurjón Ragnar
Leggja verður aukna áherslu á tungumálakennslu fyrir börn með annan tungumála- og menningarbakgrunn á Norðurlöndum. Þetta kom fram í umræðum norrænu menntamálaráðherranna um þýðingu menntunar fyrir inngildingu og þróun.

Á síðustu árum hefur orðið veruleg aukning á fjölda barna og ungmenna með annan tungumála- og menningarbakgrunn á Norðurlöndum. Þrátt fyrir að markmiðið sé að tryggja öllum börnum góða menntun hafa menntakerfin ekki fyllilega náð að uppfylla það markmið. Þess vegna vildi ríkisstjórn Íslands beina kastljósinu að þessu vandamáli á fundi norrænu menntamálaráðherranna í Reykjavík 3. maí. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra Íslands, hefur áhyggjur af þessari þróun.

„Við vitum að það er nauðsynlegt að læra tungumálið til þess að aðlagast og dafna í nýju samfélagi til lengri tíma litið. Því er mikilvægt að tryggja þeim börnum sem flytja hingað góða möguleika á að læra íslensku,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. „Fundurinn skilaði góðum tillögum að verkefnum sem við getum unnið áfram með á Norrænum vettvangi með það að augnamiði að öll börn fái jafna möguleika. Þannig stuðlum við að farsæld þeirra og alls samfélagsins.“

Við vitum að það er nauðsynlegt að læra tungumálið til þess að aðlagast og dafna í nýju samfélagi til lengri tíma litið. Því er mikilvægt að tryggja þeim börnum sem flytja hingað góða möguleika á að læra íslensku.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra Íslands

Börn með annan tungumála- og menningarbakgrunn fá almennt lægri einkunnir en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum og rannsóknir sýna að menntun hefur meira forvarnargildi en aðrir þættir fyrir félagslega jaðarsett börn.

Leysum vandamálin áður en þau verða til

Þess vegna er mikilvægt að til staðar sé kerfisbundin áætlun um stuðning við þessi börn á mismunandi menntastigum sem tekur mið af mismunandi þörfum þeirra. Í þessu samhengi er færni í tungumálinu lykilatriði því skortur á henni getur haft miklar afleiðingar fyrir nám og störf einstaklinga síðar á lífsleiðinni. Það er því mikilvægt að brugðist verði við þessu vandamáli til að tækifæri glatist ekki fyrir einstaklinga og samfélagið.

Einn af þremur meginþáttum framtíðarsýnar okkar er að Norðurlöndin verði félagslega sjálfbær. Það þýðir að við verðum að tryggja að öll fái að vera með.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Skýrsla Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar, sem nefnist School – a basis for successful inclusion, newly arrived children and young people in the Nordic countries, sýnir að það er erfiðleikum bundið að tryggja innflytjendum góða menntun og inngildingu í samfélaginu. Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, vísar til Framtíðarsýnar 2023.

„Einn af þremur meginþáttum framtíðarsýnar okkar er að Norðurlöndin verði félagslega sjálfbær. Það þýðir að við verðum að tryggja að öll fái að vera með. Hér höfum við fengið betri innsýn í hvað þarf að gera til að ungir innflytjendur geti aðlagast samfélaginu betur. Og þegar öll fá réttlátt tækifæri til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins skapast betra jafnvægi í efnahagslífinu,“ segir Ellemann.