Lýðræðisuppbygging hefst í skólanum

29.01.24 | Fréttir
Ungdomsskole
Ljósmyndari
UDIRS bildebank
Norrænu löndin hafa í átta ár unnið saman í tengslum við lýðræði, inngildingu og samstöðu í gegnum hið svokallaða DIS-net, sem er samstarfsnet sem samanstendur af sérfræðingum á sviði menntastefnu. Í skýrslunni „Demokrati, inkludering och sammanhållning“ (Lýðræði, inngilding og samstaða) er fjallað um þetta norræna samstarf og vinnu landanna innan menntakerfa sinna að því að verja og efla lýðræðisleg gildi.

Skýrslan varpar ljósi á mikilvægi þess að viðhalda og þróa áfram öfluga lýðræðismenningu þar sem staðinn er vörður um tjáningarfrelsi og gagnrýni á heimildir, virðingu fyrir samborgurum, samkennd og virka borgaravitund. Í skýrslunni er sérstök áhersla lögð á hlutverk menntunar í þessari vinnu. Fyrir okkur Norðurlandabúum er lýðræði ekki bara stjórnarfyrirkomulag heldur lífsstíll sem krefst stöðugrar virkni, samráðs og þátttöku.

„Málefnin sem DIS-netið fæst við eru mjög brýn. Þróunin í heimsmálum er áhyggjuefni og hefur líka áhrif á Norðurlöndum í formi vaxandi áróðurs og upplýsingaóreiðu. Þegar samnorrænum lýðræðisgildum okkar er ógnað skiptir menntunin miklu máli. Í gegnum DIS-netið getum við skipst á þekkingu og miðlað reynslu og búið okkur þannig betur undir það í sameiningu að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Marlene Giertz, formaður DIS-netsins og ráðuneytisstjóri menntamálráðuneytisins í Svíþjóð.

Í hinu norræna samstarfi hefur DIS-netið nýst til þess að afla þekkingar og upplýsinga um bestu starfsvenjur til að efla menntun í þágu lýðræðis og mannréttinda ásamt því að vinna gegn félagslegri útskúfun, öfgahyggju og trúarlegri mismunun.

Þetta eru málefni sem tengjast starfsmenningu skólanna, skólastýringu og hæfi kennara ásamt tækifærum nemenda til þess að taka þátt í lýðræðislegum ferlum og hafa áhrif á eigið líf.

Ætlunin er að efla sameiginlega vitund um og stuðning við lýðræðisleg gildi um leið og við berum virðingu fyrir og fögnum menningarlegum fjölbreytileika okkar.

Í Framtíðarsýn okkar 2030 kemur fram að norrænt samstarf miði að félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Samfélag þar sem lýðræði stendur styrkum fótum og sérhver einstaklingur upplifir að hann skipti máli og sé hluti af samfélaginu verður að okkar mati ekki til af sjálfu sér. Það verður að skapa það á hverjum degi. Norrænt samstarf um stefnumótun í gegnum DIS-netið er mikilvægur liður í þessu starfi.