Norræn nefnd: Auka þekkingarmiðlun um afnám kjarnorku

Samkvæmt Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, IAEA*, eru nú rekin um það bil 420 kjarnorkuver í heiminum og gert er ráð fyrir að loka þurfi rúmlega helmingi þeirra fyrir árið 2050. Slíkt krefst þekkingar og að mati norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar skapar það tækifæri á þekkingarmiðlun á milli bæði embættismanna og starfsfólks á Norðurlöndum.
„Við þurfum að efla þekkingu innan norrænu landanna þegar kemur að því að hætta rekstri kjarnorkuvera nýta þá innviði sem til verða við það. Norrænu löndin búa yfir mismunandi styrkleikum og þekkingu á þessu sviði en nú þurfum við að taka höndum saman og skapa norrænt notagildi og efla þekkingu og rannsóknir,“ segir Camilla Gunell, formaður þekkingar- og menningarnefndar Norðurlandaráðs
Norðurlönd geta verið í forystuhlutverki
Tillagan gengur út á að hagnýt færniþróun bætist við háskóla- og starfsnám með það fyrir augum að unnt verði að taka kjarnorkuver úr rekstri með öruggum hætti og þróa ný notkunarsvið, t.d. á sviði velferðarmála og í tengslum við lyfjaframleiðslu.
Norræn miðstöð myndi stuðla að því að til staðar væri menntað starfsfólk innan kjarnorkugeirans, að samræma mætti færni og nýta hana betur í þágu allra norrænu landanna og að efla mætti norræna innviði þannig að Norðurlönd geti tekið forystu í færniþróun á sviði kjarnorku.
Lokaafgreiðsla á þinginu
Eftir að nefndin fjallaði um tillöguna á fundi sínum fyrr á árinu hafa bæði sjálfbærninefndin, velferðarnefndin og hagvaxtarnefndin fengið hana til umsagnar. Á þeim grundvelli ákvað nefndin á fundi sínum í Kaupmannahöfn í september að fara lengra með tillöguna sem næst verður rædd á þingfundi á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í 44. viku.
*nucleardecomissioning.pdf (iaea.org)