Norðurlandaráð, Ísland og Skotland funduðu rafrænt um kórónuveiruna

21.04.20 | Fréttir
Nordiska rådet höll möte med Islands och Skottlands parlament i april 2020.

Nordiska rådet höll möte med Islands och Skottlands parlament i april 2020.

Photographer
Arne Fogt Bergby

Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs hélt fjarfund með forseta Alþingis og forseta skoska þingsins 20. apríl.

Kórónufaraldurinn var til umræðu á rafrænum fundi Norðurlandráðs, Alþingis og skoska þingsins mánudaginn 20. apríl. Tilgangur fundarins var meðal annars að skiptast á upplýsingum um reynslu af kórónuveirunni og leggja áherslu á mikilvægi náins samstarfs á erfiðleikatímum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs, Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og Ken Macintosh, forseti skoska þingsins, tóku þátt í fundinum. Fundurinn var framhald á heimsókn Norðurlandaráðs til skoska þingsins í janúar á þessu ári. Að þessu sinni var fundurinn haldinn rafrænt vegna kórónufaraldursins.

Faraldurinn var líka fyrirferðarmestur á dagskránni. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði kórónukreppuna sýna glögglega hvaða þýðingu millilandasamstarf hefur.

„Þegar við stöndum í þessum sporum sjáum við hversu mikilvægt norrænt og evrópskt samstarf er. Við verðum að læra af þessum erfiðleikum og átta okkur á að við þurfum að vinna enn nánar saman þegar kemur að neyðarviðbrögðum og öryggismálum,“ sagði Silja Dögg og undirstrikaði að hún vildi einnig sjá aukið samstarf við Skota.

Ken Macintosh lagði áherslu á hið góða samband Skota við Norðurlönd og lýsti stuðningi við hugmyndir um aukið samstarf.

Starfið heldur áfram þrátt fyrir kórónuveiruna

Á fundinum var einnig skipst á upplýsingum um reynslu af því hvernig þjóðþingin starfa í kórónukreppuni þegar fjarvinna er orðin að viðtekinni venju í stað þess að heyra til undantekninga.

Silja Dögg greindi frá því að Norðurlandaráð starfi af miklum krafti þrátt fyrir faraldurinn. Forsætisnefnd og nefndirnar fjórar funda rafrænt með þátttakendum alls staðar á Norðurlöndum og hefur það gefist vel.

Gott samband

Hefð er fyrir nánu sambandi norrænu landanna við Skotland og voru fundarmenn á einu máli um að viðhalda því góða sambandi með fleiri fundum í framtíðinni.

Mikilvægt er fyrir Norðurlandaráð að eiga gott samstarf við bæði Skotland og Bretland í heild. Í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum 2018–2022 er sérstaklega tekið fram að Bretland sé sjálfsagður samstarfsaðili Norðurlanda þrátt fyrir Brexit.