Skoska þingið vill nánara samstarf við Norðurlandaráð

31.01.20 | Fréttir
Nordiska rådet besökte Skottlands parlament den 30 januari 2020.

Nordiska rådet besökte Skottlands parlament den 30 januari 2020.

Ljósmyndari
Arne Fogt Bergby

Norðurlandaráð heimsótti skoska þingið þann 30. janúar. Á myndinni eru Emma Harper, þingmaður í skoska þinginu, Ken Macintosh, forseti skoska þingsins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, Hans Wallmark, fulltrúi í forsætisnefnd, Oddný Harðardóttir, varaforseti, ásamt Beatrice Wishart, þingmanni í skoska þinginu.

Sendinefnd frá forsætisnefnd Norðurlandaráðs heimsótti skoska þingið. Í heimsókninni hittu fulltrúarnir Ken Macintosh, forseta skoska þingsins, auk annara þingmanna. Fulltrúar beggja hliða lögðu áherslu á náin söguleg og menningarleg tengsl milli Norðurlanda og Skotlands og mikilvægi áframhaldandi samstarfs.

Heimsóknin fór fram 30. janúar, daginn fyrir útgöngu Bretlands úr ESB. Brexit var þar af leiðandi töluvert til umræðu í heimsókninni og þá sérstaklega þýðing þess fyrir Skotland og samstarf við Norðurlönd og ESB.

Hvorir tveggja skosku þingmennirnir og fulltrúar Norðurlandaráðs undirstrikuðu mikilvægi þess að halda áfram uppi öflugu samstarfi eftir Brexit.

- Sögulega hafa alltaf verið sterk tengsl milli norrænu landanna, Skotlands og Bretlands í heild sinni. Norðurlandaráð mun gera allt sem í valdi þess stendur til að tryggja áframhaldandi gott samstarf. Skotland mun alltaf eiga vin í norrænu löndunum, því getið þið treyst hvað sem Brexit líður, sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.

Áfram náið samstarf eftir Brexit

Silja Dögg Gunnarsdóttir fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs, sem í voru einnig Oddný Harðardóttir, varaforseti og Hans Wallmark, fulltrúi í forsætisnefndinni.

Heimsóknin er í samræmi við stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum, þar sem meðal annars kemur fram að Bretland sé áfram sjálfsagður samstarfsaðili Norðurlanda eftir Brexit. Norðurlandaráð hyggst einnig hitta breska þingið síðar á árinu.

- Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á mikilvægi þess fyrir löndin okkar að við eigum áfram náið samband við Bretlandseyjar. Við hefðum auðvitað kosið að Bretland væri áfram í ESB. En við verðum horfast í augu við þann veruleika sem blasir við og gera það besta í stöðunni, sagði Hans Wallmark.

Sameiginlegt gildismat

Skosku gestgjafarnir undirstrikuðu einnig hið nána samband milli Skotlands og Norðurlanda.

- Það var okkur sönn ánægja að bjóða félaga okkar í Norðurlandaráði velkomin í skoska þingið. Við búum þegar yfir sterkum sögulegum, menningarlegum og landfræðilegum tengslum og við glímum við margar af sömu áskorunum, allt frá líffræðilegri fjölbreytni til falsfrétta. Ég er sannfærður um að vináttan okkar á milli muni áfram þróast og dafna, sagði Ken Macintosh, forseti skoska þingsins.