Theresa May kemur á þing Norðurlandaráðs í Ósló

24.10.18 | Fréttir
Theresa May gästar Nordiska rådets session 2018.

Theresa May, forsætiseráðherra Bretlands mun ávarpa þing Norðurlandaráðs í Ósló.

Ljósmyndari
Peter Hove Olesen/Scanpix
Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, sækir heim þing Norðurlandaráðs í Ósló 30. október. Theresa May flytur ræðu strax að lokinni þingsetningu síðdegis á þriðjudeginum.

Breski forsætisráðherrann flytur ræðu sína fyrir allt Norðurlandaráð í þingsalnum í Stórþinginu. Norrænu forsætisráðherrarnir verða einnig í salnum en þeir halda árlegan leiðtogafund sinn með ráðinu strax að loknu ræðu Theresu May.

Forseti Norðurlandaráðs, Michael Tetzschner, hlakkar til að hitta Theresu May. Hann leggur áherslu á að Norðurlöndunum er í mun að samstarfið við Bretland verði áfram gott, einnig eftir Brexit.

"Bretland er eitt af mikilvægustu samstarfslöndum Norðurlandanna, ekki síst þegar kemur að viðskiptum, efnahagsmálum og öryggismálum. Við eigum afar gott samstarf við Bretland og munum að sjálfsögðu vinna að því að samband okkar verði áfram frábært. Allir aðilar njóta góðs af áframhaldandi góðu samstarfi," segir Michael Tetzschner.

Tekur einnig þátt í norrænum leiðtogafundi

Meðan á heimsókn Theresu May til Óslóar stendur tekur hún einnig þátt í Northern Future Forum, árlegum leiðtogafundi forsætisráðherra Breta og forsætisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Ráðherrarnir munu ræða tæknivæðingu heilbrigðisgeirans og þýðingu hennar fyrir heilbrigðisgeirann í framtíðinni.

70. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Ósló frá 30. október til 1. nóvember.

 

Dagskrá Theresu May í Stórþinginu 30. október

Kl. 13.37 Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Theresa May koma í Stórþingið. Hægt verður að taka myndir fyrir framan aðaldyrnar. Strax þar á eftir verða ávörp Ernu Solberg og Theresu May í Vandrehallen í Stórþinginu.

Þá verður tvíhliða fundur Ernu Solberg og Theresu May.

Kl. 14.15 Þing Norðurlandaráðs verður sett og Theresa May flytur ræðu. Hægt er að fylgjast með ræðu May og þinginu frá aðstöðu fjölmiðlafólks eða gegnum streymi á stortinget.no.

Til fjölmiðla: Takið eftir að fjölmiðlafólk er beðið um að vera mætt í síðasta lagi kl. 13.15. Allir verða að fara í gegnum öryggisgæslu. Hægt er að skrá sig gegnum krækjuna hér að neðan í síðasta lagi föstudaginn 26.10, kl. 14.00.