Norðurlandaráð vill auka samstarf við Norður-Ameríku

02.11.18 | Fréttir
Tilhørere i Stortinget, Nordisk Råds Session 2018

Tilhørere i Stortinget, Nordisk Råds Session 2018

Photographer
Johannes Jansson
Norðurlandaráð vill dýpka samstarfið við Norður-Ameríku. Í Norður-Ameríku búa 12 milljónir manna sem skilgreina uppruna sinn sem norrænan og í því býr mikið sóknarfæri sem ber að nýta enn betur að mati ráðsins.

Á nýafstöðnu þingi sínu í Ósló samþykkti Norðurlandaráð tilmæli þar sem norrænu ríkisstjórnirnar eru hvattar til þess að greina hvernig hægt væri að nýta í auknum mæli það sóknarfæri sem liggur í því hversu margir íbúar Bandaríkjanna og Kanada telja sig tengda Norðurlöndunum.

Ráðið telur að fyrir hendi séu miklir möguleikar á dýpra samstarfi á sviði atvinnulífs, ferðamennsku, menningar og rannsókna og menntunar.

Norðurlöndin og norræna líkanið nýtur mikillar virðingar sem ber að nýta til aukinna áhrifa og forystu í alþjóðlegu samstarfi.

Ráðið vill einnig að norrænu ríkisstjórnirnar og Norræna ráðherranefndin kanni möguleikana á auknu og markvissu samstarf milli norrænna sendiráða í Bandaríkjunum og Kanada. Auk þess bendir Norðurlandaráð á sóknarfæri sem felast í samstarfi milli Norðurlandanna og Norður-Ameríku gegnum ýmis félög, stofnanir og áætlanir.

„Norðurlöndin og norræna líkanið nýtur mikillar virðingar sem ber að nýta til aukinna áhrifa og forystu í alþjóðlegu samstarfi,“ segir í tilmælum Norðurlandaráðs.

Gott samstarf getur orðið enn betra

Norðurlandaráð bendir á að samstarfið milli Norðurlandanna og Norður-Ameríku sé gott fyrir og að starf Norrænu ráðherranefndarinnar og ríkisstjórnanna að því sé þegar gott en að ástæða sé til að kanna hvort hægt sé að gera enn betur og vinna enn markvissar.

Tillagan um aukið samstarf við Norður-Ameríku var upphaflega lögð fram af Flokkahópi jafnaðarmanna. Þá bætti forsætisnefnd ráðsins við frekari áherslusviðum. Lokatillagan var samþykkt einróma. Allir 74 þingmennirnir sem í salnum voru greiddu tillögunni atkvæði.