Norðurlandaráð virðir afstöðu Gretu Thunberg

30.10.19 | Fréttir
Hans Wallmark
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org

Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs

„Við virðum bæði ákvörðun Gretu Thunberg og rökstuðning hennar,“ segir Hans Wallmark, forseti Norðurlandaráðs, um þá ákvörðun hennar að afþakka umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs á þriðjudagskvöld.

Sú hreyfing sem Greta Thunberg er í forsvari fyrir hefur áhrif á og er hvatning fyrir heila kynslóð. Það er virðingarvert. Við ættum öll, ekki aðeins innan norræna samstarfsins, að hlusta á rödd hennar og annarra sem krefjast aðgerða.

Að sögn Wallmarks mun Norðurlandaráð nú athuga vandlega hvað gert verði við verðlaunaféð sem nemur 350 þúsundum danskra króna.

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs var haldin í tónleikahúsinu Konserthuset í Stokkhólmi þriðjudaginn 29. október. Í þakkarræðunni, sem tveir aðgerðasinnar í loftslagsmálum fluttu fyrir hönd Gretu þar sem hún er stödd í Kaliforníu, sagði hún það heiður að hafa hlotið verðlaunin en að hún gæti ekki þegið þau:

„Ég vil þakka Norðurlandaráði fyrir þessa viðurkenningu. Þetta er mikill heiður. En loftslagshreyfingin þarf ekki á fleiri verðlaunum að halda. Það sem við þurfum er að valdhafar og stjórnmálafólk hlusti á það sem vísindin hafa fram að færa.“

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.