88 verkefni geta fengið tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs

13.06.23 | Fréttir
Miljøpris tekstil 2023
Photographer
Ritzau_Scanpix - Johan Gadegaard

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023 er sjálfbær framleiðsla og notkun á textíl.

Fataskápsráðgjafi, nýir þræðir úr gömlum gallabuxum, úrgangsflokkunarlausnir, deilihugmyndir, fræðimenn, skiptidagar fyrir föt og hugsmiðja. Alls bárust tillögur að 88 tilnefningum til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Tillögurnar 88 koma víðs vegar að á Norðurlöndum og veita einstaka og áhugaverða innsýn í norræn verkefni á sviði sjálfbærrar framleiðslu og notkunar á textíl. Þemað er víðtækt og nær til líftíma textíls í heild, allt frá framleiðslu á hráefni til hönnunar, sölu og endurnýtingar.

„Við vonum að umhverfisverðlaunin geti átt þátt í að sýna fram á að textíliðnaðurinn geti verið sjálfbær og að nú þegar séu til góð fordæmi sem sækja megi innblástur til,“ segir Cilia Indahl, formaður verðlaunanefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Í gegnum hlekkinn hér fyrir neðan geturð kynnt þér tillögurnar 88.

Fjallað verður um sjálfbæra nýtingu textíls á Folkemødet

Á þjóðfundinum Folkemødet á Borgundarhólmi verða umræður um hringrásarhugsun í fata- og textíliðnaði í brennidepli. Þar gefst færi á að hitta íslensku listakonuna Ýr Jóhannesdóttur og hlýða á erindi um þær gríðarlegu félagslegu, umhverfislegu og loftslagstengdu áskoranir sem textílbransinn stendur frammi fyrir. Kíktu í Norðurlandatjaldið í stæði 20 laugardaginn 17. júní kl. 10.45 þar sem þú getur hitt Tönju Gotthardsen og Önju Bakke Riise frá norsku samtökunum Framtiden i våre hender og Marianne Holmer, meðlim dómnefndar umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Ferlið fram undan

Í ljós kemur 1. september 2022 hver þessara 88 verkefna verða útnefnd til verðlaunanna.

Tilkynnt verður um handhafa umhverfisverðlaunanna 2023 á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Ósló þann 31. október.

Verðlaunahafinn hlýtur að launum 300 þúsund danskar krónur.

Fyrri verðlaunahafar

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum.