Minna kjöt, meira úr jurtaríkinu: Hér eru Norrænar næringarráðleggingar 2023
Sjötta útgáfa Norrænna næringarráðlegginga sem út kemur í dag felur í sér viðamestu uppfærsluna til þessa frá því skýrslan kom fyrst út fyrir 40 árum.
Jafnframt er um að ræða umfangsmesta vísindalega grunn í heimi þegar kemur að heilnæmu mataræði, bæði fyrir umhverfið og heilsuna.
Ráðleggingarnar eru byggðar á þeim bestu vísindalegu upplýsingum sem völ er á um matvælaneyslu, heilsu og umhverfismál.
„Með skýrslunni fáum við vísindalegan grunn sem sýnir að hollt mataræði er oftast líka sjálfbært. Það felast mikil samlegðaráhrif á milli heilsufars og umhverfismála í þeirri breytingu sem nauðsynleg er á matarvenjum okkar, segir Rune Blomhoff, verkefnisstjóri Norrænna næringarráðlegginga 2023 og prófessor við háskólann í Ósló.
Mælir að mestu með grænkerafæði
Í skýrslunni voru áhrif 36 næringarefna og 15 matvælaflokka á heilsu könnuð.
Lagt er til mataræði sem að mestu er sótt í jurtaríkið og samanstendur af miklu grænmeti, ávöxtum, berjum, baunum, kartöflum og heilkorni.
Mælt er með mikilli neyslu á fiski og hnetum, hóflegri neyslu á mjólkurvörum sem innihalda litla fitu, takmarkaðri neyslu á rauðu og hvítu kjöti og sem minnstri neyslu á unnum kjötvörum, áfengi og unninni matvöru sem inniheldur mikla fitu, salt og sykur.
Norrænu brautryðjendastarfi fagnað á alþjóðavísu
Kynning nýrra norrænna næringarráðlegginga þann 20. júní vekur áhuga á alþjóðavettvangi.
Að sögn Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, sýnir nýja útgáfan af Norrænum næringarráðleggingum fram á „sterka tengingu á milli heilsu fólks og heilsu jarðar“.
„Ég vil óska Norrænu ráðherranefndinni til hamingju með þessa glæsilegu skýrslu og hið opna ferli sem fól í sér opinberar umsagnir. Meginráðleggingin, að færa sig yfir í grænkerafæði, er í takt við það sem fræðin segja,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus.
„Hjálpar Norðurlandabúum að borða hollan og umhverfisvænan mat“
Norræna ráðherranefndin gefur Norrænar næringarráðleggingar út en þær eru afrakstur einstaks norræns samstarfs. Með skýrslunni fá löndin sameiginlegan gagnreyndan grundvöll til að byggja á þegar þau taka saman sín eigin næringarráð fyrir íbúa sína.
„Skýrslan sem við fáum í hendurnar í dag mun hjálpa Norðurlandabúum að borða hollan og umhverfisvænan mat því næringarráð landanna verða unnin út frá henni og þannig segir hún til um hvað verður á matseðlum skóla, sjúkrahúsa og annarra mötuneyta á vegum hins opinbera,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar sem gefur skýrsluna út.
Skýrslan hefur þegar vakið umræður
Skýrslan er afrakstur fjögurra ára vinnu mörg hundruð norrænna og erlendra vísindamanna.
Aðferðafræðin er í samræmi við alþjóðlega staðla og áður en að útgáfu kom fór fram gagnsætt ferli þar sem allar bakgrunnsgreinar voru í opinberri samráðsgátt í átta vikur.
Þegar áður en skýrslan kom út höfðu farið fram töluverðar umræður um hana í norrænu löndunum, meðal annars vegna þess að búist var við því að mælt yrði með því að dregið yrði úr kjötneyslu eins og í öðrum vísindalegum skýrslum um umhverfis- og loftslagsmál.
Það eru löndin sjálf sem ákveða með hvaða hætti þau nýta næringarráðleggingarnar við vinnslu á sínum eigin næringarráðum.
Þau geta því tekið tillit til eigin landsbundinna áherslna og aðstæðna.
Staðreyndir um Norrænar næringarráðleggingar 2023
- Neysluráðleggingum eða viðmiðunarmörkum níu næringarefna hefur verið breytt frá síðustu útgáfu: E-vítamín, B6-vítamín, fólat, B12-vítamín, C-vítamín, kalsín, sink og selen.
- Baunir: Mælt með aukinni neyslu, einkum af umhverfislegum ástæðum.
- Áfengi: Þar sem ekki er hægt að gefa upp örugg viðmiðunarmörk um áfengisneyslu er í Norrænum næringarráðleggingum 2023 mælt með því að öll forðist neyslu áfengis. Sé áfengis neytt ber inntaka að vera í lágmarki. Þetta á einnig við um konur með börn á brjósti. Strangari ráðleggingar (algjört bindindi) eiga við um börn, unglinga og þungaðar konur.
- Kornvörur: Mælt er með aukinni neyslu heilkorns, bæði af heilsufarslegum og umhverfislegum ástæðum. Mælt er með því að neyta að minnst kosti 90 gramma af heilkorni á dag.
- Grænmeti, ávextir og ber: Mælt er með samtals 500–800 grömmum á dag af ýmiss konar grænmeti, ávöxtum og berjum.
- Fiskur: Mælt er með aukinni neyslu fiskmetis úr sjálfbærum stofnum, bæði af heilsufarslegum og umhverfislegum ástæðum. Mælt er með því að neytt sé 300–450 gramma á viku, þar af að minnsta kosti 200 gramma af feitum fiski.
- Rautt kjöt: Af heilbrigðisástæðum er mælt með því að neysla á rauðu kjöti fari ekki yfir 350 grömm á viku. Halda ber neyslu á unnu rauðu kjöti í lágmarki. Af umhverfisástæðum ætti neysla á rauðu kjöti að vera töluvert minni en 350 grömm.
- Norrænu næringarráðleggingarnar eru vísindalegur grunnur fyrir næringarráð norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna.
- Alþjóðlegt samstarf hefur getið af sér fimm eldri útgáfur Norrænna næringarráðlegginga en sú fyrsta kom út árið 1980.
- Stjórnvöld, vísindamenn og nemendur um allan heim hafa hlaðið niður nýjustu útgáfunni, sem kom út árið 2012, meira en 300 þúsund sinnum.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, hélt erindi þegar Norrænu næringarráðleggingarnar voru kynntar.