Norðurlönd herða róðurinn gegn matarsóun
Þriðjungi matvæla sem framleidd eru í heiminum er fleygt og á Norðurlöndum tapast 3,6 milljón tonn af mat á ári af því honum er fleygt eða hann skemmist. Minni matarsóun snýst um sjálfbærni í loftslags- og umhverfismálum en skiptir líka sköpum fyrir þróun viðnámsþolins matvælakerfis.
Norrænir ráðherrar sjávarútvegs, landbúnaðar, matvæla og skógræktar (FJLS) eru sammála um að Norræna ráðherranefndin skuli auka samstarfið og tengjast nýjum böndum til að ná sjálfbærnimarkmiðunum í sameiningu.
„Við gegnum öll hlutverki. Allt frá gerðum okkar í daglegu lífi þar sem bragðlaukarnir vega þyngra en best fyrir-dagsetningin. Nú ráðast Norðurlönd í sameiginlegar aðgerðir til að tryggja að gefið sé í,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Dregið úr matarsóun fyrir græn Norðurlönd
Á ráðherrafundi FJLS á Íslandi í sumar sameinuðust ráðherrarnir um yfirlýsingu um að endurnýja fyrri skuldbindingar sínar vegna heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun og Framtíðarsýnar Norðurlanda fyrir 2030 og til að efla vinnuna gegn matarsóun.
„Við erum staðráðin í að vinna með virkum hætti gegn matarsóun. Til að það verði að veruleika hvetjum við til aukins samstarfs innan matvælakerfanna í heild,“ segir í yfirlýsingu ráðherranna.
Norræna ráðherranefndin skuldbindur sig í yfirlýsingunni til þess að vinna að 12. heimsmarkmiðinu, einkum markmiði 12.3, í löndunum, á svæðinu og á heimsvísu. Þetta á að gera með ýmsum sameiginlegum aðgerðum svo sem auknu samtali um valfrjálsa samninga og lagasetningu, samstarfsnetum embættisfólks og sérfræðinga hjá stofnunum og í ráðuneytum, handbók með bestu starfsvenjur og með því að taka málið upp á alþjóðavettvangi.
Átaksárinu ýtt úr vör á norrænum leiðtogafundi
Aðgerðum til að herða róðurinn gegn matarsóun var ýtt úr vör með Nordic Food Waste Summit 2023 þar sem fram komu ýmsar mikilvægar tillögur til aðgerða í norrænu samstarfi. Leiðtogafundurinn í apríl var fullsetinn þegar ráðherrar, sérfræðingar, aðgerðasinnar, fyrirtæki og félagasamtök hvaðanæva að á Norðurlöndum komu saman.
Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar og Marie prinsessa í Danmörku tóku þátt í ráðstefnunni og vöktu með þeim hætti meiri athygli á málefninu. Marie prinsessa benti í opnunarræðu sinni á að matarsóun varðaði ekki eingöngu loftslagsbreytingar:
„Baráttan gegn matarsóun snýst ekki eingöngu um loftslagsbreytingar. Hún snýst einnig um efnahag og siðfræði. Að draga úr matarsóun varðar réttlæti um heim allan.
Hlutdeild allrar heimsbyggðarinnar
Í samræmi við ósk ráðherranna um að Norðurlönd taki höndum saman á heimsvísu verður matarsóun á dagskrá „Food Systems Day“ í norræna skálanum á loftslagsráðstefnu SÞ í desember.
Það veitir Norðurlöndum einstakt tækifæri til að knýja áfram alþjóðlegt samstarf um að ná heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun.
María Danaprinsessa, Peter Kullgren, landsbyggðaráðherra Svíþjóðar, og Jacob Jensen, matvæla-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Danmerkur, á Nordic Food Waste Summit 2023 í Stokkhólmi.