Mikill áhugi og umræður þegar nýju næringarráðleggingarnar voru kynntar

23.06.23 | Fréttir
High-level panel launch NNR2023
Photographer
Golli/norden.org
Útgáfa Norrænu næringarráðlegginganna 2023 hefur vakið umræður og einnig athygli fjölmiðla, bæði innan Norðurlanda og á alþjóðavettvangi. Einkum eru það ráðleggingar sem hljóða upp hámarksneyslu á kjöti sem nemur 350 grömmum á viku og áfengisneyslu sem vakið hafa viðbrögð.

Stærstu fjölmiðlar allra Norðurlandanna fjölluðu um útgáfu Norrænna næringarráðlegginga 2023 með fyrirsögnum á borð við „Norrænir sérfræðingar vilja draga úr kjötneyslu um heilan þriðjung“ og „Nýjar ráðleggingar: Neytið enn minna kjöts og forðist áfengi“.

Strax á fyrsta sólarhringnum eftir útgáfuna var nýju skýrslunni hlaðið niður 18 þúsund sinnum.

Miklar umræður hafa kviknað um strangar ráðleggingar varðandi kjötneyslu, meðal annars í tengslum við landbúnaðarmál og sjálfsnægtarstig landanna.

„Við leggjum fram vísindaleg gögn varðandi umskipti vegna framtíðarsýnar Norðurlanda. Hitt er innanlandspólitík,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar sem fjármagnaði og lét vinna skýrsluna sem fjallar um matvælaneyslu okkar.

Matvæli knýja grænu umskiptin áfram

Á kynningunni ræddi fjöldi norrænna og erlendra sérfræðinga um það hvernig við getum skapað forsendur fyrir sjálfbærum og hollum matarvenjum sem samræmast heimsmarkmiðum SÞ og hvað þarf til þess að innleiða nýju ráðleggingarnar í löndunum.

Stefanos Fotiou frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna lagði áherslu á mikilvægi sameiginlegrar stefnu varðandi sjálfbær og heilnæm matvæli. Á núverandi hraða munu engin af heimsmarkmiðunum nást.

„Matvælakerfin geta nýst sem mikilvægt verkfæri við grænu umskiptin. Breytingar á matvælakerfunum fela í sér mikil tækifæri til að draga úr losun en einnig þegar kemur að félagslegu réttlæti og velferð,“ segir Stefanos Fotiou frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Loftslagsvandinn og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni bíða ekki

Náttúruverndarsamtökin WWF fagna Norrænu næringarráðleggingunum 2023, sem byggðar eru á bestu vísindalegu upplýsingum sem völ er á um matvælaneyslu, heilsu og umhverfismál.

„Breyting á mataræði okkar er sú aðgerð sem ein og sér er líklegust til að draga úr losun,“ segir Joao Campari frá WWF kallar eftir aðgerðum frá löndunum.

„Við verðum að hafa hugfast að þetta snýst um tíma. Loftslagsvandinn og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni bíða ekki. Ef breytingarnar verða ekki nægilega hraðar eða við tefjum þær enn frekar verður það okkur dýrkeypt,“ bætir hann við.

Reikna með því að löndin fylgi ráðleggingunum

Daginn eftir kynninguna voru Norrænu næringarráðleggingarnar 2023 kynntar fyrir norrænum ráðherrum landbúnaðar- og matvælamála. Prófessor Rune Blomhoff sem er verkefnisstjóri nýju útgáfunnar hvatti ráðherrana til þess að hlusta á vísindin.

„Við reiknum með því að öll norrænu löndin fylgi NNR2023-rammanum og gefi út metnaðarfullar ráðleggingar fyrir umhverfið og loftslagið,“ segir Rune Blomhoff.

Matvælaráðherra Íslands tók í sama streng og sagði mikilvægt að taka djarfar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir.

„Norrænu næringarráðleggingarnar 2023 eiga að brýna okkur til aðgerða. Hefðbundnar iðngreinar verða að standa undir því að uppfylla kröfur næstu kynslóðar neytenda sem leggur áherslu á áhrif matvæla á umhverfið. Við verðum að þora,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Staðreyndir um Norrænar næringarráðleggingar 2023

  • Neysluráðleggingum eða viðmiðunarmörkum níu næringarefna hefur verið breytt frá síðustu útgáfu: E-vítamín, B6-vítamín, fólat, B12-vítamín, C-vítamín, kalsín, sink og selen.
  • Baunir: Mælt með aukinni neyslu, einkum af umhverfislegum ástæðum.
  • Áfengi: Þar sem ekki er hægt að gefa upp örugg viðmiðunarmörk um áfengisneyslu er í Norrænum næringarráðleggingum 2023 mælt með því að öll forðist neyslu áfengis. Sé áfengis neytt ber inntaka að vera í lágmarki. Þetta á einnig við um konur með börn á brjósti. Strangari ráðleggingar (algjört bindindi) eiga við um börn, unglinga og þungaðar konur.  
  • Kornvörur: Mælt er með aukinni neyslu heilkorns, bæði af heilsufarslegum og umhverfislegum ástæðum. Mælt er með því að neyta að minnst kosti 90 gramma af heilkorni á dag.
  • Grænmeti, ávextir og ber:  Mælt er með samtals 500–800 grömmum á dag af ýmiss konar grænmeti, ávöxtum og berjum.
  • Fiskur: Mælt er með aukinni neyslu fiskmetis úr sjálfbærum stofnum, bæði af heilsufarslegum og umhverfislegum ástæðum. Mælt er með því að neytt sé 300–450 gramma á viku, þar af að minnsta kosti 200 gramma af feitum fiski. 
  • Rautt kjöt: Af heilbrigðisástæðum er mælt með því að neysla á rauðu kjöti fari ekki yfir 350 grömm á viku. Halda ber neyslu á unnu rauðu kjöti í lágmarki. Af umhverfisástæðum ætti neysla á rauðu kjöti að vera töluvert minni en 350 grömm.
  • Norrænu næringarráðleggingarnar eru vísindalegur grunnur fyrir næringarráð norrænu landanna og Eystrasaltsríkjanna.
  • Alþjóðlegt samstarf hefur getið af sér fimm eldri útgáfur Norrænna næringarráðlegginga en sú fyrsta kom út árið 1980.
  • Stjórnvöld, vísindamenn og nemendur um allan heim hafa hlaðið niður nýjustu útgáfunni, sem kom út árið 2012, meira en 300 þúsund sinnum.
Contact information