Norræna ráðherranefndin leggur áherslu á náttúrulegar lausnir

21.10.21 | Fréttir
Spindelvæv i græsset
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Endurheimt villtra svæða (rewilding), vernd og endurreisn vistkerfa og náttúrusvæða. Norræna ráðherranefndin ráðstafar 6,5 milljónum danskra króna til þess að styðja tilraunaverkefni sem ætlað er að prófa sóknarfæri í náttúrulegum lausnum alls staðar á Norðurlöndum.

Villt náttúra er hluti lausnarinnar á loftslagsvánni. IPCC  (Intergovernmental Panel on Climate Change) áætlar að náttúrulegar lausnir geti dregið úr hnattrænni losun um allt að þriðjung. Ef tryggja á að hnattræn hlýnun fari ekki ekki yfir tvær gráður eins og kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu skiptir sköpum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um leið nema breytingar og nýting náttúrusvæða, sérstaklega vegna landbúnaðar, skógræktar og byggðar um 25% losunar af mannavöldum. Þess vegna geta náttúrulegar lausnir svo sem endurheimt, vernd og endurreisn vistkerfa og náttúrusvæða orðið mikilvægur liður í lausninni á þeirri kreppu á sviði loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni sem við glímum nú við. Norræna ráðherranefndin kannar þessi tækifæri í norrænu samhengi í áætluninni Náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum.

Sækið um styrk til tilraunaverkefna

Í fyrsta hluta áætlunarinnar veitir Norræna ráðherranefndin styrki til tilraunaverkefna á öllum Norðurlöndunum. Þau sem styrkina hljóta geta bæði þróað ný verkefni á sviði náttúrulegra lausna og þróað áfram verkefni sem þegar eru fyrir hendi. Markmiðið er að byggja upp hagnýta reynslu og nýja þekkingu á innleiðingu náttúrulegra lausna á Norðurlöndum. Verkefnin eiga að hefjast í ársbyrjun 2022 og verður fylgt vel eftir af eftirlitsaðila til loka ársins 2023 þegar niðurstöður allra verkefnanna verða gefnar út í sameiginlegri skýrslu.  Varið verður 6.500.000 danskra króna til tilraunaverkefnanna og hægt er að sækja um um styrk að upphæð 200.000 – 900.000 danskra króna vegna hvers verkefnis. Umsóknarfrestur er til 17. desember 2021.

Norræna ráðherranefndin hefur ráðstafað 26 milljónum króna til fjögurra ára áætlunar um náttúrulegar lausnir á Norðurlöndum. Undir áætlunina heyra fimm undirverkefni sem unnin verða á árunum 2021 til 2024.

Svörin er að finna í náttúrunni

Fyrr á þessu ári kom út skýrsla þar sem fram kemur hvernig varðveisla og enduruppbygging náttúrusvæða getur verið liður í lausn bæði á alvarlegri stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og um leið vegið upp á móti loftslagsvánni. Vísindafólkið að baki skýrslunni fór í gegnum  átta tilvik frá Norðurlöndunum og hafa fundið áherslusvið þar sem bæði líffræðileg fjölbreytni er styrkt og dregið er úr losun. Skýrslan greinir einnig tíu pólitískar aðgerðir sem geta gagnast bæði loftslaginu og líffræðilegri fjölbreytni. Skýrslan var unnin af skrifstofu dönsku háskólanna fyrir alþjóðaststofnunina um líffræðilega fjölbreytni, IPBES, og Miðstöð vistfræði, þróunar og loftslags (Center for Makroøkologi, Evolution og Klima) við Kaupmannahafnarháskóla og var fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.