Ný skýrsla: Þessar náttúrulegu lausnir geta stuðlað að bættu loftslagi og aukinni líffræðilegri fjölbreytni

03.05.21 | Fréttir
Foto af naturområde med træer
Photographer
Anne Nygard - Unsplash.com
Um 25% af kolefnislosun af mannavöldum eru talin stafa af nýtingu og breytingum á náttúrusvæðum, einkum í tengslum við landbúnað, skógnýtingu og mannvirkjagerð. Í nýrri skýrslu sem fjármögnuð er af Norrænu ráðherranefndinni er bent á fjölda lausna sem nýta má til að stuðla að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og stemma stigu við loftslagsvánni.

Heimurinn stendur frammi fyrir tveimur stórum áskorunum á sviði sjálfbærni, annars vegar hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og hins vegar loftslagsbreytingum. Ný skýrsla, sem unnin er af skrifstofu dönsku háskólanna fyrir alþjóðastofnunina um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi, IPBES, ásamt stofnuninni um vistfræði, þróun og loftslag við Kaupmannahafnarháskóla (Center for Makroøkologi, Evolution og Klima) og fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni, inniheldur ýmsar tillögur að því hvernig varðveisla og endurheimt náttúrusvæða geti átt þátt í að leysa báðar áskoranirnar.

Í stuttu máli er lagt til að veita vatni á framræst mýrlendi og leyfa skógum að vaxa og eldast.

Lars Dinesen, sérfræðingur hjá IPBES í Danmörku

Villt náttúra hluti lausnarinnar við loftslagsvandanum

Rannsakendurnir sem skrifuðu skýrsluna hafa yfirfarið fjölda dæma frá norrænu löndunum og þannig fundið þá þætti sem stuðla að aukinni líffræðilegri fjölbreytni og jafnframt minnkaðri losun gróðurhúsalofttegunda.

„Í stuttu máli er lagt til að veita vatni á framræst mýrlendi og leyfa skógum að vaxa og eldast,“ segir Lars Dinesen, sérfræðingur hjá IPBES í Danmörku.

„Kortlagning okkar sýnir að varðveisla og endurheimt náttúrulegra vistkerfa, svo sem votlendis og skóga, skiptir sköpum fyrir líffræðilega fjölbreytni og er einnig mikilvæg fyrir loftslagið. Þannig má tryggja mörgum tegundum í útrýmingarhættu örugg heimkynni og sjá til þess að náttúruleg kolefnisupptaka og -geymsla vistkerfa vinni gegn loftslagsbreytingum,“ bætir Anders Højgård Petersen við, en hann er sérfræðingur hjá stofnuninni um vistfræði, þróun og loftslag (Center for Makroøkologi, Evolution og Klima, CMEC), Globe Institut, Kaupmannahafnarháskóla.

Meira vatn í hámýri á Jótlandi hefur minnkað kolefnislosun um 10.500 tonn á ári

Í skýrslunni segir meðal annars frá endurheimtarverkefni í Lille Vildmose í Danmörku, en það er ein stærsta hámýri í Norður-Evrópu og stærsta hámýrin sem eftir er í Danmörku. Hið varðveitta svæði, 21 ferkílómetri að flatarmáli, er þó aðeins þriðjungur hinnar upprunalegu hámýrar. Tvo þriðju er búið að eyðileggja, meðal annars með framræslu og mótekju.

Í Lille Vildmose er nú búið að tryggja náttúrulega hátt vatnsborð í hinni varðveittu hámýri og endurheimta hærra vatnsborð í stórum hluta af hinum eyðilögðu mýrarsvæðum. Í kjölfarið er áætlað að dregið hafi úr kolefnislosun um 10.500 tonn á ári, og einnig hefur líffræðileg fjölbreytni á þessu einstaka náttúrusvæði aukist umtalsvert.

Önnur dæmi lúta að endurheimt í 35 sænskum mýrum og möguleika á endurheimt 20 þúsund ferkílómetra af framræstu mýrlendi í Finnlandi, á svæðum þar sem skógrækt er ekki lengur hagkvæm, auk endurheimtar skógtegunda sem næstum voru útdauðar í Noregi og á Íslandi. Dæmin í skýrslunni og áherslur hennar eru í samræmi við Stefnumörkun ESB um líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030, sem Danmörk lýsti stuðningi við í október 2020 ásamt öðrum Evrópusambandslöndum. 25 prósent af komandi fjárveitingum ESB eru því eyrnamerkt loftslagsmálum og samkvæmt stefnumörkuninni er þess vænst að þar af verði umtalsverðum hluta veitt til náttúrulegra lausna.

Tíu tillögur að pólitískum aðgerðum

Að auki leggja skýrsluhöfundar fram tíu tillögur að pólitískum aðgerðum sem byggja á hinum átta dæmum sem skoðuð eru í skýrslunni, fyrirliggjandi rannsóknum og yfirferð á gildandi stefnumörkunum.

  1. Endurheimt náttúrusvæða veitir norrænu löndunum einstakt tækifæri til að aðlagast og taka forystuna í því að ná alþjóðlegum markmiðum á sviði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsmála með náttúrulegum lausnum.
  2. Það skiptir sköpum að hætta framræslu í mýrum og standa þess í stað vörð um náttúrulegar kolefnisgeymslur og líffræðilega fjölbreytni.
  3. Norrænu löndin geta spornað gegn kolefnislosun og stuðlað að langvarandi endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni með því að veita vatni á ný í framræst mýrlendi og mómýrar, þar með talin svæði sem nú eru nýtt til landbúnaðar, skógræktar eða mótekju.
  4. Með því að draga úr skógnýtingu má standa vörð um gamla skóga og mikilvæga líffræðilega fjölbreytni og stemma stigu við loftslagsbreytingum með varðveislu náttúrulegra kolefnisgeymsla.
  5. Enduruppbygging á skógarvistkerfum, sem gefur þeim möguleika á að þróast í sömu átt og náttúrulegum gömlum skógum, skiptir sköpum fyrir varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika, spornar gegn loftslagsbreytingum og eykur mótstöðuafl vistkerfisins.
  6. Verndaraðgerðir í nýttum skógum eru einnig möguleiki. Þótt þær yrðu ekki nærri eins áhrifaríkar til varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika gætu þær átt þátt í að ná eða viðhalda loftslagstengdum og fjárhagslegum ávinningi af skógnýtingu.
  7. Bætt skráning gagna um gróðurhúsalofttegundir og líffræðilega fjölbreytni í varðveittum og enduruppbyggðum vistkerfum, helst á einum og sama stað, skiptir sköpum við að þróa vel ígrundaðar og áhrifaríkar náttúrulegar lausnir og aðgerðir.
  8. Að skipuleggja aðgerðir á stóru svæði eykur skilvirkni og greiðir fyrir staðbundnum og almennari samlegðaráhrifum milli þess að varðveita líffræðilega fjöbreytni og draga úr loftslagsbreytingum.
  9. Betri landsbundin ráðgjafar- og miðlunarferli þegar kemur að niðurstöðum vísindarannsókna á líffræðilegri fjölbreytni og loftslagsbreytingum stuðla að betri ákvarðanatöku og bættri opinberri umræðu.
  10. Metnaðarfull þverlæg og þverfagleg stefnumótun getur stuðlað að útbreiddari notkun hagkvæmra og náttúrulegra lausna við áskorununum á sviði líffræðilegs fjölbreytileika og loftslags.