Norrænir frambjóðendur mætast á umræðufundi vegna kosninga til Evrópuþings

18.03.19 | Fréttir
Møde i Plenum Stortinget, Jessica Polfjärd blandt tilhørere, Nordisk Råds Session 2018

Møde i Plenum Stortinget, Jessica Polfjärd blandt tilhørere, Nordisk Råds Session 2018

Ljósmyndari
Sara Johannessen
Í tilefni kosninganna til Evrópuþingsins í vor verður haldinn umræðufundur þar sem eingöngu verða norrænir þátttakendur. Norðurlandaráð efnir þá í fyrsta sinn til fundar með frambjóðendum frá öllum þremur norrænu Evrópusambandsríkjunum. Fundurinn verður haldinn í tengslum við þemaþing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Þátttakendurnir verða frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð og nokkrir eru leiðtogar lista flokka sinna í kosningunum 26. maí. Til dæmis verða fulltrúar frá öllum dönsku flokkunum og næstum allir leiða lista sína.

Fundarstjóri verður Anna Gaarslev, Evrópumálafréttamaður dönsku almannaþjónustustöðvarinnar DR. Umræðunum er skipt í þrjá málaflokka: Norðurlöndin eftir Brexit, umhverfismál og varnar- og öryggismál.

„Þetta er einstakur viðburður. Við höfum ekki áður innan Norðurlandaráðs orðið vitni að umræðufundi í aðdraganda kosninga til Evrópuþings með þátttöku fulltrúa allra norrænu ESB-ríkjanna. Það verður áhugavert að taka þátt í umræðum þar sem málefnin verða tekin fyrir út frá norrænu sjónarhorni og þar sem rætt verður um málefni sem eru brýn bæði fyrir Norðurlöndin og ESB,“ segir Jessica Polfjärd, forseti Norðurlandaráðs, sem einnig er frambjóðandi Moderaterna í Svíþjóð.

Norrænn upptaktur að Evrópuþingskosningunum

Allir norrænir þingmenn sem verða á staðnum eiga þess kost að leggja fram spurningar meðan á umræðunum stendur, einnig þingmenn þjóða sem ekki eru aðilar að ESB. Þannig verður þetta sameiginlegur norrænn upptaktur að kosningunum til Evrópuþingsins. Sendinefnd Dana í Norðurlandaráði stendur að fundinum.

„Hjá Norðurlandaráði leggjum við áherslu á gott samstarf milli norrænu ríkjanna, líka innan ESB. Þess vegna er þessi sameiginlegi norrænu upptaktur að Evrópuþingskosningunum ekki bara mikilvægur nú heldur alger nýjung. Það verður áhugavert að sjá hvort umræðan verður hvatning til nýrra samstarfsmöguleika milli norrænu ríkjanna innan ESB.“ segir Norðurlandaráðsþingmaðurinn Henrik Dam Kristensen sem verður gestgjafi viðburðarins.

Opið fjölmiðlum og almenningi

ESB-umræðurnar verða haldnar 8. apríl kl. 15-17 á Marriott Hotel, Kalvebod brygge 5 í Kaupmannahöfn og þær eru opnar almenningi. Þau sem vilja fylgjast með umræðunum á staðnum þurfa á skrá sig á netfangið NordiskEU-debat@ft.dk í síðasta lagi 1. apríl. Takmarkaður sætafjöldi.

Fjölmiðlar geta skráð sig hjá Matts Lindqvist upplýsingaráðgjafa á netfanginu matlin@norden.org eða í síma +45 29 69 29 05.  

Norðurlandaráð kemur saman á árlegu þemaþingi sínu í Kaupmannahöfn 8.-9. apríl. Þemað í ár er jafnrétti og lýðræði. ESB-kosningafundurinn er hliðarviðburður á þinginu. Umræðurnar verða á skandinavísku tungumálunum og verða túlkaðar á finnsku, íslensku og ensku. Þeim verður streymt á netinu.

Þátttakendur í umræðunum eru:

Danmörk: Mette Bock (Liberal Alliance), Morten Løkkegaard (Venstre), Jeppe Kofod (Socialdemokratiet) Peter Kofod (Dansk Folkeparti), Pernille Weiss (Konservative), Morten Helveg Petersen (Radikale Venstre), Margrete Auken (SF), Nikolaj Villumsen (Enhedslisten), Rasmus Nordqvist (Alternativet) og Lave K. Broch (Folkebevægelsen mod EU).

Finnland: Kimmo Sasi (Samlingspartiet) og Mia Haglund (Vänsterförbundet).

Svíþjóð: Jessica Polfjärd, (Moderaterna) og Peter Lundgren (Sverigedemokraterna).

Norðurlandaráð er þingmannavettvangur norræns samstarfs. Ráðið var stofnað 1952 og er skipað 87 fulltrúum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Norðurlandaráð kemur saman fjórum sinnum á ári.