Svansmerktar vörur eiga að leiða til þróunar markaðarins til sjálfbærni

31.10.19 | Fréttir
kaka med svanen
Ljósmyndari
Stian Fjelldal
Auka ætti umfang Svansins, norrænu umhverfismerkingarinnar, til þess að hann nái til fleiri vöruflokka. Þetta er skoðun Norðurlandaráðs. Fleiri Svansmerkt raftæki ættu að sporna gegn ört vaxandi uppsöfnun á raftækjarusli.

„Það á að vera einfalt fyrir neytendur að stuðla að hringrásarhagkerfi og sjálfbærum umskiptum í loftslagsmálum. Þess vegna viljum við auka umfang Svansins þannig að hann nái til fleiri vöruflokka,“ segir Åsa Karlsson, fulltrúi sænskra jafnaðarmanna í norrænu sjálfbærninefndinni þegar tillagan var til meðferðar á þingfundi á Norðurlandaráðsþinginu. 

Skilgreina fleiri vörutegundir

Ákvörðunin varð sú að Norðurlandaráð fer þess á leit við ráðherranefndina að skilgreindir verði vöruflokkar sem gætu farið inn í Svansmerkinguna og þar með stuðlað að hringrásarhagkerfi.  Norsk rannsókn frá 2018 sýnir að áætlaður líftími raftækja er að styttast - þetta er þróun sem neytendur geta alls ekki stýrt.  Viðskiptalíkan framleiðenda byggist yfirleitt á því að selja nýja vöru í stað þess að gera við. Þetta hefur leitt til þess að raftækjarusl er sá úrgangsstraumur heims sem vex örast. 

Hlutbréfasjóðir og kynlífshjálpartæki

Í 30 ár hefur Svanurinn hjálpað norrænum neytendum að velja umhverfisvænt - og leitt til þróunar markaðarins í átt til meiri sjálfbærni. Til þess að vara eða þjónusta geti fengið Svansmerki er allur ferill vörunnar frá hráefni til úrgangs metinn. Meira en 25.000 vörutegundir eru nú með umhverfismerki, allt frá húsum til hlutabréfasjóða og kynlífshjálpartækja.

  

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.