Þörf er á átaki til að efla verkmenntun á Norðurlöndum

30.03.23 | Fréttir
Ung kvinnlig skomakare tillverkar skor

Minna Kummala studerar till skomakare på Utbildning Nord i Övertorneå.

Ljósmyndari
Henric Öhman/norden.org

Minna Kummala lærir til skósmiðs í Utbildning Nord í Övertårneå.

Framtíð verkmenntunar á Norðurlöndum var til umræðu þegar stjórnmálamenn úr Norðurlandaráði og fagfólk frá Norðurlöndum öllum kom saman á ráðstefnu í Haparanda til að ræða hvaða beinu aðgerða sé þörf til að ráða bót á skorti á fagmenntuðu starfsfólki á Norðurlöndum.

Spár gera ráð fyrir að vanta muni 350 þúsund fagmenntaða starfsmenn á Norðurlöndum árið 2030. Í skýrslu Norðurlandaráðs, „Spennandi starfsmiðað nám á Norðurlöndum“, sem kom út í janúar á þessu ári eru taldar upp nokkrar aðgerðir sem miða að miðlun upplýsinga landanna á milli, brottfellingu stjórnsýsluhindrana og öflun upplýsinga um þörfina á vinnuafli á Norðurlöndum í heild. Skýrslan var samin af hugveitu sem skipuð var fulltrúum menntageirans, verkalýðsfélaga og samtaka atvinnurekenda á Norðurlöndum sem margir hverjir sóttu jafnframt ráðstefnuna.

Einnig fóru fram mun almennari umræður á ráðstefnunni í Haparanda. Rætt var um breytta menningu þegar kemur að viðhorfi til stöðu verkmenntunar, áframhaldandi vinnu gegn staðalmyndum í starfsgreinum þar sem karlar eða konur eru í meirihluta og ekki síst fjármögnun verkmenntunar.

Aukið fjármagn í starfsmenntun?

Einn þátttakenda á ráðstefnunni, Tormod Skjerve, sem áður var fulltrúi norsku atvinnurekendasamtakanna Virke, telur að ræða þurfi fjármögnun æðri starfsmenntunar á Norðurlöndum.

„Í Noregi fær bóklegt háskólanám 97% fjármagnsins og æðri starfsmenntun 3%. Þar munar mjög miklu og ég kalla eftir samtali um það hvort breyta þurfi áherslunum með tilliti til þarfa vinnumarkaðarins,“ segir Skjerve.

„Eins og staðan er núna þurfa nemendur æ oftar sjálfir að standa straum af kostnaði við nám sitt en í bóklegu námi er gengið út frá því að námið eigi að vera ókeypis,“ bendir Skjerve á.

Þrændalagsleiðin virkjar ungt og atvinnulaust fólk

Á meðal þátttakenda á ráðstefnunni var einnig Torbjørn Aas, forstjóri NAV í Þrændalögum, en það er stofnun sem gegnir hlutverki vinnumiðlunar, tryggingastofnunar og félagsþjónustu. Hann tók þátt í þróun Þrændalagsleiðarinnar sem gengur út á að hjálpa ungu fólki sem fallið hefur út af vinnumarkaði og úr skólakerfinu að afla sér starfsmenntunar. Þannig er jafnframt komið til móts við þá miklu þörf sem er á starfsmenntuðu vinnuafli á svæðinu.

„Þetta er samstarf á milli NAV, fylkisstjórnarinnar í Þrændalögum, fyrirtækjanna á svæðinu og námsleiðanna, og það er mjög gjöfult og allir græða á því. Unga fólkið fær menntun og störf og fyrirtækin fá vinnuaflið sem þau þurfa,“ segir Aas.

Jafn hlutur kynjanna innan námsleiðanna mikilvægur

Hildur Ingvarsdóttir, rektor Tækniskólans, segir frá jafnréttisvinnunni í tengslum við starfsmenntun á Íslandi.

„Það hefur sýnt sig að vinnustaðir þar sem bæði vinna karlar og konur eru eftirsóttari en þeir sem fyrst og fremst eru skipaðir annaðhvort körlum eða konum. Til að ná þessu fram verður að leggja áherslu á að laða bæði karla og konur að öllum námsleiðum. Þessi vinna stendur stöðugt yfir og í mínum skóla hefur til dæmis tekist að fjölga konum sem læra rafvirkjun og pípulagnir,“ segir hún.

Það er ljóst að við verðum að vinna miklu meira í tengslum við starfsmenntun innan norræns samstarfs og gefa málinu aukið vægi.

Camilla Gunell, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar

Forgangsmál innan Norðurlandaráðs

Camilla Gunell, formaður norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar, segir ráðstefnuna hafa opnað augu sín.

„Það er ljóst að við verðum að vinna miklu meira í tengslum við starfsmenntun innan norræns samstarfs og gefa málinu aukið vægi,“ segir Gunell.

Hún bendir á að strax í grunnskóla ætti að gera það eftirsóknarvert fyrir börn að velja starfsnám, og að á mörgum svæðum á Norðurlöndum ríki atvinnuleysi innan ákveðinna starfsgreina en á öðrum svæðum sé skortur á vinnuafli. Þetta ætti að leysa með auknu samstarfi, m.a. á milli verkalýðsfélaga og vinnumiðlana í löndunum.

Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs, setur framtíð starfsmenntunar í samhengi við framtíðarsýn norræns samstarfs um að Norðurlönd verði samþættasta og sjálfbærasta svæði heims.

„Ef við eigum að verða samþættasta svæði heims verður að vera hægt að stunda nám og vinnu hvar sem er innan Norðurlanda. Og hvað grænu umskiptunum viðvíkur má nefna að rafhlöðuframleiðsla er vaxandi iðnaður þar sem við á Norðurlöndum verðum að sjá til þess að námið skili þeirri hæfni sem þörf er á. Þess vegna eru fundir á borð við þennan, þar sem fulltrúar ólíkra starfgreina geta skipst á reynslu frá sínum löndum, svo mikilvægir,“ segir Asphjell.

Hann bendir einnig á það, rétt eins og Rasmus Emborg , forseti Norðurlandaráð æskunnar, sem er viðstaddur ráðstefnuna, að ungt fólk verði sjálft að fá að koma að vinnunni við að þróa starfsmenntunina.

Tengiliður