Kallað eftir norrænni miðstöð um þekkingu á sviði kjarnorkumála

03.11.23 | Fréttir
May Britt Lagesen presenterer forslaget om å opprette et nordisk senter for nukleær kompetanse
Ljósmyndari
Stine Østby

May Britt Lagesen á Stórþinginu á þingi Norðurlandaráðs 2. nóvember 2023.

Norðurlandaráð kallar eftir því að ríkisstjórnirnar á Norðurlöndum komi á fót miðstöð um þekkingu á sviði kjarnorkumála.

Kallað eftir norrænni miðstöð um þekkingu á sviði kjarnorkumála

„Við á Norðurlöndum búum yfir sérfræðiþekkingu þegar kemur að því að loka kjarnorkuverum. Nú höfum við einstakt tækifæri til að tryggja norrænan ávinning og stuðla að öruggri meðhöndlun úrgangs bæði á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum,“ segir May-Britt Lagesen, þingmaður norska Verkamannaflokksins og meðlimur norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar hjá Norðurlandaráði.

Samkvæmt Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, IAEA, mun þurfa að loka 200 af þeim 450 kjarnorkuverum sem starfrækt eru í heiminum fyrir árið 2050.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin viðurkennir norsku orkutæknistofnunina, Institutt for Energiteknikk, sem leiðandi stofnun þegar kemur að því að vinna starfræn spálíkön og þrívíddarlíkön sem nota má í fræðsluskyni til þess að draga úr áhættu þegar kjarnorkuverum er lokað.

Mikilvægt að efla stafræna getu

Norræn miðstöð um þekkingu á sviði kjarnorkumála yrði vettvangur fyrir fræðslu og þekkingarmiðlun í tengslum við aflagningu kjarnorkuvera alls staðar á Norðurlöndum.

„Norðurlönd geta tekið sér forystuhlutverk í þessum efnum en til þess þurfum við að efla og þróa þá þekkingu og færni sem við búum yfir. Það er jafn mikil þörf á sérþekkingu á sviði gervigreindar og þjarka og á eðlisfræðingum, verkfræðingum og sérfræðingum á sviði úrgangsmeðhöndlunar,“ segir Lagesen.

„Það er staðreynd að hægt er að endurvinna allt að 90 prósent úrgangsins með því að nota og þróa nýja tækni og stafræn kerfi. Þetta skiptir vitaskuld miklu máli. Við megum ekki líta fram hjá því að hringrásarhagkerfið skiptir höfuðmáli þegar við horfum til framtíðar,“ bætir hún við.

Hefur þýðingu á fleiri sviðum

Tillagan byggist á viðurkenningu á því að tryggja þurfi fræðslu og menntun til þess að aflagning kjarnaofna geti átt sér stað með faglegum og sjálfbærum hætti. Einnig er litið svo á að aukin stafræn geta í tengslum við kjarnorkumál muni skipta máli á öðrum sviðum. Til dæmis eru stafræn spálíkön og þrívíddarlíkön mikilvæg við menntun heilbrigðisstarfsfólks í tengslum við sjúkdómsgreiningar og skurðlækningar.

Kostnaður við verkefnið er hár í upphafi en mun lækka smám saman og til greina kemur að fá einkafyrirtæki að verkefninu. 22 aðilar koma að verkefninu og fleiri hafa lýst áhuga.

Tillagan fer nú áfram til Norrænu ráðherranefndarinnar.