Ákvarðanir Norðurlandaráðs á þinginu 2023

16.11.23 | Fréttir
Plenum i Stortingssalen i Oslo, Sessionen 2023
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org

Á þingi sínu í Ósló dagana 30. október til 2. nóvember 2023 samþykkti Norðurlandaráð 23 ný tilmæli.

Á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló 2023 voru samþykkt 23 ný tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar og norrænu ríkisstjórnanna. Hér eru nokkrar af þeim ákvörðunum sem teknar voru þegar þingmennirnir 87 komu saman.

Löggjöf um vistmorð

Norðurlandaráð samþykkti tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar um að vinna að því að vistmorð, þ.e. stórfelld umhverfisspjöll, verði skilgreind sem glæpur og að ráðherranefndin taki þátt í viðeigandi alþjóðaviðræðum til þess að stöðva alvarleg brot gegn náttúrunni jafnt á stríðs- sem friðartímum.

Átak gegn ofbeldi í nánum samböndum

Norræna ráðherranefndin ætti að vinna að því að tryggja samanburðarhæf talnagögn um morð og ofbeldi maka í nánum samböndum samkvæmt einum af tilmælum Norðurlandaráðs. Bent er á að norsk rannsókn sýni að í flestum tilvikum hafi fórnarlamb makamorðs áður haft samband við yfirvöld sem bendir til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir morðið. Jafnframt er kallað eftir auknu samstarfi norrænu landanna í tengslum við rannsóknir á ofbeldi í nánum samböndum.

Rannsóknir á sviði kjarnorkumála

Norðurlandaráð vill að Norræna ráðherranefndin kanni hvernig Norðurlönd geta betur unnið saman í tengslum við kunnáttu á sviði kjarnorkumála. Einkum er lögð áhersla á að Norðurlönd þurfi á slíkri kunnáttu að halda þegar kemur að því að hætta núverandi kjarnorkuvinnslu. Norðurlönd geta verið í fararbroddi á þessu sviði og einnig myndi ný þekking geta nýst á alþjóðavettvangi. Samkvæmt Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, IAEA, mun þurfa að loka 200 af þeim 450 kjarnorkuverum sem starfrækt eru í heiminum fyrir árið 2050.