Tilnefningar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017

22.08.17 | Fréttir
Nominerede til filmprisen 2017 (sharable for web)
Ljósmyndari
Louise Jeppesen/norden.org
Dómnefndir í löndunum hafa tilnefnt eftirfarandi fimm kvikmyndir til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

DANMÖRK

Foreldrar eftir Christian Tafdrup, leikstjóra og handritshöfund, og Thomas Heinesen framleiðanda.

Nokkuð sjaldgæft er að vísað sé til norrænu goðafræðinnar og ævintýra H.C. Andersens í dönskum kvikmyndum þó að dönsk kvikmyndahefð eigi að mörgu leyti rætur að rekja til slíkra sagna. Yfirnáttúrulegir atburðir eru þar afar fátíðir. Þessu ræður Christian Tafdrup bót á í fyrstu kvikmynd sinni, Foreldrum, þar sem miðaldra hjón verða þess vör einn morguninn að þau eru orðin ung í annað sinn. Þetta er klikkuð, kjánaleg og flippuð mynd, en eins og allar góðar furðusögur hittir hún jafnframt á einhvern sérstakan stað í sál áhorfandans – og Bodil Jørgensen og Søren Malling eru ógleymanleg í hlutverkum hjónanna.

FINNLAND

Tyttö nimeltä Varpu eftir Selmu Vilhunen, leikstjóra og handritshöfund, og framleiðendurna Kaarle Aho og Kai Nordberg.

Í kvikmyndinni Tyttö nimeltä Varpu verður saga einstæðrar móður og dóttur hennar að allsherjarævintýri sem hverfist um viðfangsefni daglegs lífs. Þetta er fyrsta mynd Selmu Vilhunen í fullri lengd, en stuttmynd hennar Pitääkö mun kaikki hoitaa? (Þarf ég að sjá um allt?) var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2014. Linnea Skog, sem var aðeins 12 ára gömul á tökutíma myndarinnar, sýnir rík blæbrigði í hlutverki sínu sem dóttirin og Paula Vesala geislar frá sér kvenlegri orku í hlutverki móðurinnar. 

ÍSLAND

Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, leikstjóra og handritshöfund, og framleiðendurna Jesper Morthorst, Anton Mána Svansson og Lise Orheim Stender.

Hjartasteinn er þroskasaga unglinganna Þórs og Kristjáns en sögusviðið er íslenskt sjávarþorp. Vinirnir hafast ýmislegt að sem dæmigert er fyrir íslenskar sumarnætur; fara til veiða, í útilegu og kynnast stelpum. Sagan hverfist um djúpa og innilega vináttu drengjanna tveggja og mögulega kynferðislega spennu þeirra á milli.
 
Leikstjórnarstíll Guðmundar Arnars Guðmundssonar er afslappaður og natúralískur og þó að fegurð fjarðanna í baksýn sé töfrandi nær hún ekki að skyggja á frásögnina og þá skörpu mynd sem dregin er upp af reynslu drengjanna. Frábær frammistaða aðalleikaranna Baldurs Einarssonar og Blæs Hinrikssonar, auk hins gróna landslags Austurlands, undirstrikar enn frekar hinn óvenju brothætta styrk myndarinnar.

NOREGUR

Fluefangeren eftir Izer Aliu, leikstjóra og handritshöfund, og Khalid Maimouni framleiðanda.

Fluefangeren er óvenju vel heppnuð mynd með lágan framleiðslukostnað þar sem öll úrræði eru nýtt með sem bestu móti. Persónur sögunnar, kennarinn og nemendur hans, eru kynntar fyrir áhorfandanum á svo fínlegan og eðlilegan hátt að hann fær á tilfinninguna að þau átakamiklu samskipti sem hann verður vitni að séu raunveruleg. Sögusviðið er afar sértækt; skólastofa í makedónsku þorpi. Izer Aliu segir sögu sem hefur pólitískt og sálrænt gildi á ýmsum sviðum og er jafnframt skörp lýsing á því hvernig einræðisríki getur risið og fallið.

SVÍÞJÓÐ

Samablóð eftir Amöndu Kernell, leikstjóra og handritshöfund, og Lars G. Lindström framleiðanda.

Hér er á ferð hugrökk frásögn sem opnar á samræður um bældan og gleymdan kafla í sögu Svíþjóðar og sem á jafnframt brýnt erindi við samtímann með umfjöllun sinni um uppruna og félags- og menningarlegan hreyfanleika. 

Amanda Kernell sýnir hér vald sitt á handverki kvikmyndalistarinnar og mikinn næmleika hvað varðar persónusköpun og smæstu smáatriði. Ásamt myndatökumanninum Sophiu Olsson tekst henni að fanga bæði stórbrotið landslag og innsta kjarna aðalpersónunnar; smæð manneskjunnar í hinu stærra samhengi.

 

Verðlaun Norðurlandaráðs verða afhent þann 1. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki.