Fluefangeren – Noregur

Billede fra"Fluefangeren" (Norge) - Burhan Amiti
Photographer
Nils Eilif Bremdal
Norska kvikmyndin „Fluefangeren“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Fluefangeren er pólitísk allegóría um ris og fall einræðisríkis. Sögusviðið er skólastofa og spannar frásögnin einn viðburðaríkan dag þar sem áhorfandinn kynnist Ghani, kennara með háleitar hugsjónir sem missir vinnuna fyrsta skóladaginn. Í lokatilraun til að endurheimta starfið læsir hann nemendur sína inni í skólastofunni og neyðir þá til að finna lausn á átökum sem heimabæir þeirra hafa háð í heilan mannsaldur.

Rökstuðningur dómnefndar

Fluefangeren er óvenju vel heppnuð mynd með lágan framleiðslukostnað þar sem öll úrræði eru nýtt með sem bestu móti. Persónur sögunnar, kennarinn og nemendur hans, eru kynntar fyrir áhorfandanum á svo fínlegan og eðlilegan hátt að hann fær á tilfinninguna að þau átakamiklu samskipti sem hann verður vitni að séu raunveruleg. Sögusviðið er afar sértækt; skólastofa í makedónsku þorpi. Izer Aliu segir sögu sem hefur pólitískt og sálrænt gildi á ýmsum sviðum og er jafnframt skörp lýsing á því hvernig einræðisríki getur risið og fallið.

Handritshöfundur / leikstjóri – Izer Aliu

Izer Aliu fæddist í Makedóníu árið 1982, ólst upp í Svíþjóð og settist loks að í Noregi. Hann lauk námi frá kvikmyndaskólanum í Lillehammer í Noregi árið 2012 með útskriftarverkinu Å vokte fjellet. Myndin vann til Amanda-verðlaunanna fyrir bestu stuttmynd á kvikmyndahátíðinni í Haugesund í Noregi og var tilnefnd til Óskarsverðlauna kvikmyndaleikstjórnarnema. Önnur stuttmynd hans, Det gode livet, der borte (2014), vann til verðlauna sem besta myndin á stuttmyndahátíðinni í Grimstad í Noregi.

Fluefangeren er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Myndin var tekin í Makedóníu og heimsfrumsýnd á Discovery Programme á kvikmyndahátíðinni í Toronto 2016. Eftir það var hún sýnd á fjölda annarra hátíða, meðal annars í Tromsø, þar sem hún vann til norsku friðarkvikmyndaverðlaunanna.

Hinn afkastamikli Aliu vinnur nú að tveimur verkefnum: raunsæisdramanu 12 Bragder, sem er í eftirvinnslu, og pólitísku stórmyndinni Slavemerket.

Framleiðandi – Khalid Maimouni

Khalid Maimouni fæddist árið 1979 í Tangiers í Marokkó og kom til Noregs 11 ára gamall. Fyrsta reynsla hans af kvikmyndaheiminum var sem handritshöfundur sjónvarpsþáttaraðarinnar Glatte gater (2007) eftir Rune Denstad Langlo og heimildamyndarinnar 99% ærlig (2008). Frumraun hans sem handritshöfundar og leikstjóra var stuttmyndin Gateselgerne, sem Denstad Langlo framleiddi fyrir Motlys (2010). Árið 2012 gekk hann til liðs við helsta eftirframleiðslufyrirtæki Noregs, Storyline Studios, þar sem hann starfaði fyrst í leigudeild kvikmyndatökuvéla og sem eftirframleiðandi áður en hann varð yfirmaður nýrrar framleiðsludeildar fyrirtækisins, The End. 

Fluefangeren eftir Izer Aliu er fyrsta myndin sem hann framleiðir í fullri lengd fyrir The End. Væntanleg verkefni Mamouni ásamt Aliu eru norsk/sænska kvikmyndin 12 Bragder, stuttmyndin Crazy Love og pólitíska dramað Slavemerket. Sú síðastnefnda byggir á atburðum sem urðu í kringum stærstu námuverkföll Skandinavíu snemma á 20. öld.

Á meðal annarra væntanlegra verkefna Maimounis er Sáve, fyrsta samíska barnamyndin í fullri lengd.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Fluefangeren 

Leikstjóri og handritshöfundur: Izer Aliu 

Aðalhlutverk: Burhan Amiti, Miraxh Ameti, Hadis Aliov, Besar Amiti

Framleiðandi: Khalid Maimouni

Framleiðslufyrirtæki: The End

Lengd: 109 mínútur

Dreifing í Noregi: Europa Film

Alþjóðleg dreifing: LevelK