Little Wing – Finnland

Billede fra"Little Wing" (Finland) - Linnea Skog
Ljósmyndari
Cata Portin
Finnska kvikmyndin „Little Wing“ (Tyttö nimeltä Varpu) er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017

Little Wing segir sögu hinnar 12 ára gömlu Varpu (Linnea Skog) sem er óðum að vaxa úr grasi á meðan móðir hennar, Siru (Paula Vesala), vill ekki verða fullorðin. Eitt kvöldið hefur Varpu fengið nóg af félögum sínum í hestamennskunni og móður sinni. Hún stelur bíl og ekur norður á bóginn í leit að föðurnum sem hún hefur aldrei hitt. Fundur Varpu og föður hennar hrindir einhverju af stað í lífi mæðgnanna og kemur þeim í skilning um hvaða hlutverki þær gegna í tilveru hvor annarrar og í heiminum.

Rökstuðningur dómnefndar

Í kvikmyndinni Tyttö nimeltä Varpu verður saga einstæðrar móður og dóttur hennar að allsherjarævintýri sem hverfist um viðfangsefni daglegs lífs. Þetta er fyrsta mynd Selmu Vilhunen í fullri lengd, en stuttmynd hennar Pitääkö mun kaikki hoitaa? (Þarf ég að sjá um allt?) var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2014. Linnea Skog, sem var aðeins 12 ára gömul á tökutíma myndarinnar, sýnir rík blæbrigði í hlutverki sínu sem dóttirin og Paula Vesala geislar frá sér kvenlegri orku í hlutverki móðurinnar. 

Leikstjóri / handritshöfundur – Selma Vilhunen

Selma Vilhunen (f. 1976) er leikstjóri og handritshöfundur kvikmynda og heimildarmynda og hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir störf sín. Hún er búsett í Helsinki og var á meðal stofnenda framleiðslufyrirtækisins Tuffi Films.

Vilhunen lauk námi í kvikmyndaleikstjórn frá Tækniháskólanum – Listaháskólanum í Turku í Finnlandi. Hún vann tvisvar til fyrstu verðlauna á stuttmyndahátíðinni í Tampere með heimildarmyndunum Minun pikku elefanttini (2003) og Ponitytöt (2008). Hún hlaut Venla-verðlaunin, sem veitt eru fyrir bestu finnsku sjónvarpsmynd ársins, fyrir myndina Pietà (2007). Gamanstuttmynd hennar Pitääkö mun kaikki hoitaa? (Þarf ég að sjá um allt?) (2012) var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2014. Sama ár leikstýrði hún heimildarmyndinniLaulu og einnig stuttmyndinni Tyttö ja koirat ásamt franska leikstjóranum Guillaume Mainguet en sú síðarnefnda var frumsýnd á Directors’ Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Little Wing, fyrsta mynd Vilhunen í fullri lengd, var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto 2016 og hefur síðan verið sýnd á yfir 20 alþjóðlegum hátíðum. Hin unga Linnea Skog vann til Jussi-verðlauna fyrir leik sinn í myndinni auk Nordic Star-verðlauna á hátíðinni BUFF í Málmey.

Heimildarmynd Vilhunen Hobbyhorse Revolution, sem fjallar um táningamenningu tengda leikfangahestum í Finnlandi, var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Tampere 2017 þar sem hún vann til tveggja verðlauna, meðal annars aðalverðlauna hátíðarinnar. Næsta mynd leikstjórans í fullri lengd, Hölmö nuori sydän, verður frumsýnd í Finnlandi á næsta ári.

Framleiðandi – Kaarle Aho

Kaarle Aho (f.1968 í Helsinki) er með meistaragráðu í sögu frá háskólanum í Helsinki. Að loknu námi í Helsinki og á Írlandi starfaði hann við kynningu á rússneskri sígildri tónlist í Finnlandi og fleiri Norðurlöndum. Árið 1996 stofnaði hann framleiðslufyrirtækið Making Movies ásamt Kai Nordberg. Síðan hefur fyrirtækið framleitt yfir 50 heimildarmyndir, tíu kvikmyndir í fullri lengd, tvær sjónvarpsþáttaraðir og fjölda stuttmynda. Afurðir Making Movies hafa fengið dreifingu og verið sýndar í yfir 40 löndum og unnið til níu Jussi-verðlauna, Venla-verðlauna fyrir bestu finnsku sjónvarpsmynd og tveggja Kettu-verðlauna, sem veitt eru fyrir bestu finnsku stuttmyndina. Aho hefur einnig skrifað tvær heimildarmyndir, eina stuttmynd og gefið út skáldsögu.

Nýlegustu myndir hans í fullri lengd eru Little Wing eftir Selmu Vilhunen, Miekkailija eftir Klaus Härö, sem tilnefnd var til Golden Globe-verðlauna og Armoton maa eftir Jussi Hiltunen.

Aho hefur framleitt heimildarmyndir leikstjóra á borð við Thomas Balmès, Sergey Dvortsevoy og Tonislav Hristov. Hann er einnig meðframleiðandi The Look of Silence eftir Joshua Oppenheimer, sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna.

Á meðal væntanlegra mynda hans eru Tumma Kristus eftir Klaus Härö og þungarokksgamanmyndin Impaled Rektum.  

Framleiðandi – Kai Nordberg

Kai Nordberg (f.1968 í Helsinki) er framkvæmdastjóri og meðstofnandi framleiðslufyrirtækisins Making Movies í Helsinki. Á árunum 1989–1994 starfaði Nordberg sem erlendur fréttaritari og ljósmyndari í Berlín. Árið 1989 nam hann einnig kvikmynda-, sjónvarps- og fjölmiðlafræði við Freie Universität í Berlín. Árið 1996 stofnaði hann Making Movies ásamt Kaarle Aho, sem er eitt virtasta og farsælasta framleiðslufyrirtæki Finnlands í dag. Undanfarið 21 ár hefur fyrirtækið framleitt yfir 50 heimildarmyndir, tíu myndir í fullri lengd, tvær sjónvarpsþáttaraðir og fjölda stuttmynda. Á meðal þeirra sem hlotið hafa mest lof eru sjónvarpsmyndin Pietàeftir Selmu Vilhunen (sem var valin besta finnska sjónvarpsmyndin 2007), heimildarmynd Vilhunen Ponitytöt(besta langa heimildarmyndin á hátíðinni í Tampere 2008), kvikmyndin Little Wing (Jussi-verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki 2017), Musta jää eftir Petri Kotwica (tilnefnd til Gyllta bjarnarins í Berlín 2008), Love & Engineering eftir Tonislav Hristov (besta finnska heimildarmyndin á Helsinki DocPoint-hátíðinni) og Hyvä postimies (keppti til verðlauna á Sundance og IDFA-hátíðunum). Kvikmyndin Miekkailija eftir Klaus Härö var tilnefnd til bæði Golden Globe- og Óskarsverðlauna árið 2016 og hlaut Jussi-verðlaun sem besta kvikmynd og fyrir besta kvikmyndatöku 2016. Á meðal væntanlegra mynda Kai Nordberg eru Tumma Kristus eftir Klaus Härö og þungarokksgamanmyndin Impaled Rektum.

Framleiðsluupplýsingar

Leikstjóri og handritshöfundur: Selma Vilhunen

Aðahlutverk: Linnea Skog, Paula Vesala, Lauri Maijala

Framleiðendur: Kai Nordberg, Kaarle Aho

Framleiðslufyrirtæki: Making Movies

Lengd: 100 mínútur

Dreifing í Finnlandi: B-Plan

Alþjóðleg dreifing: Media Luna