Foreldrar – Danmörk

Billede fra"Forældre" (Danmark) - Søren Malling og Bodil Jørgensen
Photographer
Maria-von-Hausswolff
Danska kvikmyndin „Foreldrar“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Þegar Esben sonur þeirra flyst að heiman fara hjónin Kjeld og Vibeke skyndilega að efast um leið sína í lífinu. Fjarvera sonarins veldur því að þeim finnst ekki þörf fyrir þau lengur. Í tilraun til að endurlífga neistann frá sínum yngri árum flytja þau inn í gömlu stúdentaíbúðina þar sem þau urðu ástfangin. Brátt fer furðuleg og óvænt atburðarás af stað, þar sem viðleitni hjónanna til að endurheimta æskuna tekur að breyta þeim í bókstaflegri merkingu. Og þegar þau vakna einn daginn og uppgötva að þau hafa yngst um 30 ár verða þau að horfast í augu við að fortíðin sem þau eitt sinn þekktu er kannski ekki til lengur.

Rökstuðningur dómnefndar

Nokkuð sjaldgæft er að vísað sé til norrænu goðafræðinnar og ævintýra H.C. Andersens í dönskum kvikmyndum þó að dönsk kvikmyndahefð eigi að mörgu leyti rætur að rekja til slíkra sagna. Yfirnáttúrulegir atburðir eru þar afar fátíðir. Þessu ræður Christian Tafdrup bót á í fyrstu kvikmynd sinni, Foreldrum, þar sem miðaldra hjón verða þess vör einn morguninn að þau eru orðin ung í annað sinn. Þetta er klikkuð, kjánaleg og flippuð mynd, en eins og allar góðar furðusögur hittir hún jafnframt á einhvern sérstakan stað í sál áhorfandans – og Bodil Jørgensen og Søren Malling eru ógleymanleg í hlutverkum hjónanna.

Leikstjóri / handritshöfundur – Christian Tafdrup

Christian Tafdrup (f. 1978) er virtur kvikmyndagerðarmaður og leikari í Danmörku. 
Síðan hann útskrifaðist frá Leiklistarskóla Danmerkur árið 2003 hefur hann leikið í yfir 30 myndum og sjónvarpsþáttaröðum. Hann lék í myndinni Eftir brúðkaupið eftir Susanne Bier og hinum vinsælu dönsku sjónvarpsþáttaröðum Lærkevej og Borgen. Hann vann til Robert-verðlauna fyrir leik sinn í Borgen árið 2014. Tafdrup hefur leikstýrt þremur stuttmyndum, meðal annars En forelskelse, sem var sýnd á yfir 30 hátíðum og hlaut Robert-verðlaun sem besta stuttmynd. 

Foreldrar er fyrsta mynd hans í fullri lengd. Myndin var heimsfrumsýnd á Tribeca-hátíðinni í New York árið 2016 og á fjölda annarra hátíða í kjölfarið. Hún hefur meðal annars unnið til verðlauna sem besta evrópska myndin á Neuchâtel International Fantastic Film Festival og fyrir besta leik í aðalhlutverki (Søren Malling) á Valletta-kvikmyndahátíðinni. Myndin hlaut einnig þrjú Robert-verðlaun fyrir bestu leikstjórn, besta leik og bestu klippingu og fjögur Bodil-verðlaun danskra kvikmyndagagnrýnenda, m.a. fyrir besta handrit.

Næsta mynd sem Tafdrup skrifar og leikstýrir er gamandramað En frygtelig kvinde

Framleiðandi – Thomas Heinesen

Thomas Heinesen (f.1961) útskrifaðist sem framleiðandi frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 1989. Á ferlinum hefur hann gegnt margvíslegum stöðum í kvikmyndatökuliðum, sem hefur veitt honum yfirgripsmikla þekkingu á ferlinu að baki hverri kvikmynd. Undanfarin 17 ár hefur hann starfað með þekktum dönskum leikstjórum á borð við Susanne Bier, Niels Arden Oplev, Jakob Thuesen og Nils Malmros og unnið til fjölda verðlauna fyrir barnamyndir sínar, svo sem teiknimyndina Terkel í klípu, Supervoksen og Karlas kabale.

Á meðal væntanlegra mynda hans eru þrívíddarteiknimyndin Den utrolige historie om den kæmpestore pære í leikstjórn Philip Einstein Lipski, Jørgen Lerdam og Amalie Næsby Fick, gamanmyndin En frygtelig kvinde eftir Christian Tafdrup og stórmyndin og stuttserían Lykke-Per eftir Bille August.

FRAMLEIÐSLUUPPLÝSINGAR

Titill á frummáli: Forældre

Leikstjóri og handritshöfundur: Christian Tafdrup

Aðahlutverk: Bodil Jørgensen, Søren Malling, Miri Ann Beuschel, Elliott Crosset Hove

Framleiðandi: Thomas Heinesen

Framleiðslufyrirtæki: Nordisk Film Production

Lengd: 87 mínútur

Dreifing í Danmörku: Nordisk Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: LevelK