Hjartasteinn – Ísland

Sögusviðið er afskekkt sjávarþorp á Íslandi. Unglingsdrengirnir Þór og Kristján eiga viðburðaríkt sumar, uppgötva nýjar tilfinningar og verða fyrir kynferðislegri vakningu. Annar þeirra reynir að ná ástum stúlku á meðan hinn verður var við nýjar kenndir í garð besta vinar síns. Þegar sumarið er á enda og óblíð náttúran krefst síns er tímabært að yfirgefa leikvöllinn og mæta fullorðinsárunum.
Rökstuðningur dómnefndar
Hjartasteinn er þroskasaga unglinganna Þórs og Kristjáns en sögusviðið er íslenskt sjávarþorp. Vinirnir hafast ýmislegt að sem dæmigert er fyrir íslenskar sumarnætur; fara til veiða, í útilegu og kynnast stelpum. Sagan hverfist um djúpa og innilega vináttu drengjanna tveggja og mögulega kynferðislega spennu þeirra á milli. Leikstjórnarstíll Guðmundar Arnars Guðmundssonar er afslappaður og natúralískur og þó að fegurð fjarðanna í baksýn sé töfrandi nær hún ekki að skyggja á frásögnina og þá skörpu mynd sem dregin er upp af reynslu drengjanna. Frábær frammistaða aðalleikaranna Baldurs Einarssonar og Blæs Hinrikssonar, auk hins gróna landslags Austurlands, undirstrikar enn frekar hinn óvenju brothætta styrk myndarinnar.
Handritshöfundur / leikstjóri / framleiðandi – Guðmundur Arnar Guðmundsson
Guðmundur Arnar Guðmundsson (f. 1982) er búsettur í Danmörku og á Íslandi. Hann útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands áður en hann flutti til Danmerkur og hóf nám í handritaskrifum. Stuttmyndir hans hafa verið valdar til sýninga á yfir 200 hátíðum og hlotið yfir 50 alþjóðleg verðlaun.
Fyrstu mynd sína í fullri lengd, Hjartastein, skrifaði hann á námsbraut Cannes Cinéfondation. Síðan myndin var heimsfrumsýnd í flokkinum Venice Days á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 2016 hefur hún slegið í gegn á alþjóðavettvangi, verið sýnd á um 50 hátíðum og hlotið yfir 30 verðlaun, svo sem Queer Lion á Venice Days, áheyrendaverðlaun á hátíðunum CPH:PIX, Transilvania, Linz Crossing Europe og Angers Premiers Plans, og níu Edduverðlaun, svo sem fyrir bestu kvikmynd, leikstjórn, handrit og leik í aðalhlutverki.
Næsta verkefni Guðmundar Arnar er myndin Chicken Boy.
Framleiðandi – Jesper Morthorst
Jesper Morthorst (f. 1977) starfar sem framleiðandi hjá SF Studios Production í Danmörku. Hann lauk BA-gráðu í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist sem framleiðandi frá kvikmyndaskólanum Super16 í Kaupmannahöfn árið 2006. Undanfarinn áratug hefur hann komið að gerð 18 kvikmynda í fullri lengd, stuttmynda, heimildarmynda og sjónvarpsþáttaraða. Hann hefur framleitt myndir á borð við Hjartastein og Stille hjerte eftir Bille August, svo og hinar vinsælu sjónvarpsþáttaraðir Norskov og Rita. Myndir hans hafa keppt á stórum kvikmyndahátíðum, svo sem í Berlín, Feneyjum, Toronto, San Sebastián, Karlovy Vary og Rotterdam.
Morthorst var útnefndur „Producer on the Move“ ásamt fleirum á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2011, og deildi Lorens-verðlaununum í Gautaborg 2017 fyrir Hjartastein.
Framleiðandi – Anton Máni Svansson
Anton Máni Svansson (f. 1984) stofnaði framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures í Reykjavík árið 2007, með það að markmiði að mynda náin samstarfs- og tengslanet með ungum og hæfileikaríkum leikstjórum og handritshöfundum. Honum tókst fljótlega að skapa sér alþjóðlegt nafn með samstarfi við hæfileikaríka upprennandi leikstjóra og handritshöfunda á borð við Guðmund Arnar Guðmundsson og Hlyn Pálmason. Afurðir þessa samstarfs telja nú yfir 100 alþjóðleg verðlaun fyrir kvikmyndir sem hafa verið frumsýndar og keppt til verðlauna á hátíðum um allan heim, meðal annars í Cannes, Feneyjum og Toronto.
Anton Máni Svansson var útnefndur „Producer on the Move“ ásamt fleirum á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2017.
Framleiðandi – Lise Orheim Stender
Lise Orheim Stender (f. 1984) starfar sem framleiðandi hjá SF Studios Production í Danmörku. Hún lauk námi í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2010 og framleiddi kvikmyndina Hjartasteinárið 2016. Myndin var frumsýnd í Feneyjum í ágúst 2016 og hefur síðan unnið til yfir 30 verðlauna.
Framleiðsluupplýsingar
Titill á frummáli: Hjartasteinn
Leikstjóri: Guðmundur Arnar Guðmundsson
Handritshöfundur: Guðmundur Arnar Guðmundsson
Aðalhlutverk: Baldur Einarsson, Blær Hinriksson, Diljá Valsdóttir, Katla Njálsdóttir
Framleiðendur: Anton Máni Svansson, Lise Orheim Stender, Jesper Morthorst, Guðmundur Arnar Guðmundsson
Framleiðslufyrirtæki: SF Studios Production/Join Motion Pictures
Lengd: 129 mínútur
Dreifing á Íslandi: SF Studios
Alþjóðleg dreifing: Films Boutique