Bjørn Esben Almaas

Bjørn Esben Almaas
Photographer
Lene Sørøy Neverdal
Bjørn Esben Almaas: Den gode vennen. Skáldsaga, Oktober forlag, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Áratug eftir útkomu síðustu bókar Bjørns Esbens Almaas snýr hann aftur með skáldsöguna Den gode vennen („Hinn góði vinur“, ekki þýdd á íslensku), fallegt, órólegt og meitlað bókmenntaverk, skáldsögu sem hugsanlega – og nokkuð varfærnislega – sækir innblástur til meistara á borð við Patrick Modiano og Emmanuel Bove, það er að segja úr bókmenntum utan hinnar norrænu hefðar. Þessi orð eru rituð í tilraun til að staðsetja þennan rithöfund sem hefur farið eigin leiðir allt frá frumraun sinni árið 2001.

Svona hefst skáldsagan: „Inn í skæra birtuna á milli hillanna kemur maður.“ Og svona lýkur henni: „Brátt hverfur hann bak við grænt limgerði og er ekki lengur sjáanlegur.“

Í síðustu bók Almaas var undiralda bernskufrásagnar til staðar en hér er hvorki um að ræða nostalgíska eða ljúfsára afbyggingu á hinu liðna né sáttfúsa frásögn af uppvexti. Öllu heldur er Den gode vennen hörkuleg og átakanleg lýsing, miskunnarlaus orðsending um síendurteknar kvalir, þjáningu og illsku.

Við fyrstu sýn virðist Den gode vennen einföld að byggingu, en það á oft við um vel heppnuð og úthugsuð verk að þar virðast jafnvel flóknustu formgerðir flæða fyrirhafnarlaust. Já, jafnvel í sjálfri setningabyggingunni í frásögn Almaas liggur sérstæð, hrá samþjöppun.

Almaas hefur skrifað agaða en jafnframt sérlega grípandi skáldsögu um ömurlegar aðstæður barns, um viðvarandi og dulda þjáningu og um breyskleika hins fullorðna – ef til vill mætti kalla hana áfallasögu.

Í Den gode vennen er atburðum bernskunnar lýst í öfugri tímaröð meðan tilvera fullorðna mannsins – fjölskyldulíf hans í nútíð – streymir fram í rykkjum, nánast með hinum sígildu stíleinkennum glæpasagna. Með kunnáttusamlegu handbragði og stríðandi frásögn sýnir Almaas að hann hefur þróað ritstíl sem er alveg hans eigin.

Den gode vennen er uggvænleg greinargerð um ömurlegan uppvöxt en einnig býr í henni löngunarfull ákefð af því tagi sem aðeins framúrskarandi góðar bókmenntir geta fært okkur.