Jessie Kleemann

Jessie Kleemann, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Jessie Kleemann

Ljósmyndari
Grant Photo
Jessie Kleemann: Arkhticós Dolorôs. Ljóðabók. Forlaget Arena, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Í ljóðabókinni Arkhticós Dolorôs (2021 („Þjáning norðurslóða“, hefur ekki komið út á íslensku)) hefur Jessie Kleemann stefnt saman með meistaralegum hætti þeim viðfangsefnum sem hún hefur fengist við undanfarin 25 ár: misnotkun nútímafólks á náttúrunni, tapaðri menningu frumbyggja og baráttu afkomenda Inúíta á Grænlandi við að finna nýja sjálfsvitund í hnattrænu nútímasamfélagi. Táknum, persónum og fleiru úr grænlensku menningarlífi er blandað við sambærilega hluti langt að – á sama hátt og ólík tungumál, einkum grænlenska, danska og enska, flækjast saman og mynda alveg ný merkingarrými. Þannig má líta svo á að eitthvað hafi glatast með menningarblönduninni en jafnframt sjá í henni skapandi afl sem getur fært okkur á nýja og óvænta staði. Textinn er þrunginn sterkum tilfinningum, ekki síst sársauka og skapraun – en af sársaukanum fæðist ný merking, nýjar myndir og orð sem skora á lesandann að taka þátt í þeim könnunarleiðangri um lífskjör og tilvist sem á sér stað í ljóðunum. Þungamiðja Arkhticós Dolorôs er norðurskautssvæði sem þjáist og bráðnar. Jessie Kleemann var ein af þeim fyrstu sem túlkuðu goðsögnina um móður hafsins upp á nýtt sem nútímalegt tákn fyrir mengun og náttúruvá. Í Arkhticós Dolorôs öðlast sú persóna nýja hliðstæðu sem „kuldavera“ íssins og jöklanna; inua, sem er sál eða vera. Veran þjáist og hefnir sín grimmilega á mannfólkinu. Þannig er texti Kleemann þrunginn reynslu frumbyggja af því hve mannfólkið er háð þeirri náttúru sem það sjálft er hluti af – og þessa reynslu túlkar skáldið inn í hnattrænan nútíma okkar. Þess vegna hefur textum hennar verið eins vel tekið og raun ber vitni og því eiga þeir svo mikið erindi við lesendur, bæði á Norðurlöndum og alþjóðlega.

Það að Jessie Kleemann skuli starfa við gjörningalist sést vel í því hvernig hún nýtir sér hvíta plássið á blaðsíðunum, svo og í þeim sjónræna hreyfanleika sem textinn er gæddur. Umfjöllunarefnið er sársauki norðurslóða, reynsla nýlenduþjóðar, hin sérstæða landfræðipólitíska staða Grænlands og að sjálfsögðu hnattræn hlýnun. Þetta eru óneitanlega erfið viðfangsefni, en óstýrilát og stríðnisleg kímni sprettur einnig fram á milli bráðnandi ísjaka í textanum, eins og segir í lýsingu útgefandans á efni bókarinnar.

Jessie Kleemann fæddist árið 1959 í Upernavik á Norður-Grænlandi. Hún er leikkona og grafíklistakona að mennt. Á árunum 1984–1991 var hún skólastjóri listaskólans í Nuuk. Þrátt fyrir að hafa ekki sent frá sér margar bækur er Kleemann einn af helstu og tilraunasömustu höfundum Grænlands. Ljóð hennar má finna í fjölda safnrita og hún hefur margsinnis verið fulltrúi Grænlands á ljóðahátíðum erlendis. Þá hafa kvikmyndaleikstjórar unnið verk upp úr ljóðum hennar: Diego Barraza (Arctic Ache, 2014) og Ivalo Frank (Killerbird, 2015). Utan Grænlands er Kleemann einkum þekkt fyrir gjörningalist. Alla jafna liggur eitt eða fleiri ljóð til grundvallar listgjörningum hennar og í þeim nýtir listakonan eigin líkama til að takast á við þau viðfangsefni sem hún rannsakar með hljómfalli og orðum í ljóðum sínum. Fyrsta ljóðabók Kleemann kom út árið 1997: Taallat – Digte – Poems („Ljóð“, hefur ekki komið út á íslensku).