Johanne Lykke Holm

Johanne Lykke Holm

Johanne Lykke Holm

Ljósmyndari
Khashayar Naderehvandi
Johanne Lykke Holm: Strega. Skáldsaga. Albert Bonniers Förlag, 2020. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Í þessari draumkenndu skáldsögu Johanne Lykke Holm er dregin upp mynd af hópi stúlkna eða ungra kvenna í árstíðabundnu starfi á fjallahóteli fyrir ofan hinn skáldaða ítalska bæ Strega. Daglega er loftað út úr herbergjunum og rúmföt straujuð fyrir gesti sem aldrei koma, og í því sameiginlega hlutverki sem stúlkurnar eru þjálfaðar upp í verða skilin á milli þeirra ógreinileg. Hin vanabundnu daglegu störf eru brotin upp af vettvangsferðum – rannsóknum á innra og ytra byrði sem titrar af lífi, felur í sér gotneska ógn og munúðarfulla ákefð. Allt nær þetta hámarki í afdrifaríkri veislu undir leikstjórn sama stranga yfirmannsins og hefur umsjón með daglegum störfum á hótelinu.

Á vissan hátt er hið afskekkta hótel (líkt og í verkum Thomasar Mann eða Stephens King) staður sem heimurinn og tíminn fyrir utan ná ekki að snerta. Þess í stað er þar brugðið upp mynd af venjum liðins tíma eða dæmigerðu tímaleysi goðsagna: athöfnum til að vera táldregin af, eða til að flýja undan. Á vissan hátt er sú illska sem býr í hótelinu einnig illska heimsins alls. Í forgrunni birtist sýnin af dauða ungrar konu – stef sem oft er klætt í fagurfræðilegan eða listrænan búning, jafnt í síðrómantískri ljóðlist sem dægurmenningu okkar tíma – sem eins konar eilíf manndómsvígsla, eitthvað sem ávallt gerist / er hætt við að gerist / hefur þegar gerst: „Við vissum að líf stúlku gæti hvenær sem væri orðið að vettvangi glæps.“

Að höfundur bókarinnar hafi valið slík stef til umfjöllunar ber ekki vott um ófrumleika heldur um dirfsku, og það sem blæs nýju lífi í efnið er hinn yfirvegaði en skynvillukenndi prósi Lykke Holm, sem kemur stöðugt á óvart með óvæntu orðavali og yfirlýsingum. Hið yfirnáttúrulega brýtur sér leið inn í hversdaginn með hressandi og óheftu myndmáli: „Gluggatjald vall gegnum opinn glugga, eins og útfrymi.“ Í þessari óvenju fögru skáldsögu særir Lykke Holm ekki aðeins fram stúlknaheim fullan af helgi og launung, heldur sýnir hún möguleika á annars konar, síður rómantískri rómantík, sem er í álögum en þó laus við allt tál.

Johanne Lykke Holm er fædd árið 1987 og hefur áður gefið út skáldsöguna Natten som föregick denna dag. Hún starfar einnig við þýðingar úr dönsku yfir á sænsku og hefur umsjón með ritlistarnámskeiðinu Hekseskolen í Kaupmannahöfn ásamt Olgu Ravn.