Jón Kalman Stefánsson: Fiskarnir hafa enga fætur

Jón Kalman Stefánsson
Photographer
Kontakt forlaget
Skáldsaga, Bjartur, 2013

Jón Kalman Stefánsson er fæddur 17. desember 1963. Frumraun hans sem rithöfundar var ljóðabók sem kom út árið 1988. Síðan hafa komið út þrjár ljóðabækur, smásögur og níu skáldsögur auk fjölda þýðinga. Jón hefur þrisvar áður verið tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, síðast 2007, og hefur einnig hlotið tilnefningu til Íslensku þýðingarverðlaunanna. Árið 2005 hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin. Bækur Jóns hafa m.a. verið þýddar á Norðurlandamál, þýsku og ensku.

Í sjónvarpsviðtali á RÚV sagði Jón að Fiskarnir hafa enga fætur fjallaði um það að leita, um þjóð sem væri á flótta undan sjálfri sér, og um leitina að sjálfum sér. Hver erum við og hver viljum við vera? Er hugsanlegt að við segjum aldrei allan sannleikann og verðum því aldrei heilar manneskjur?

Leitin að sannleika og sjálfsmynd er áberandi í sögunni, sem er eins konar ættarsaga þar sem margir þræðir frá ólíkum tímaskeiðum fléttast saman. Í forgrunni er frásögn af rithöfundinum og bókaútgefandanum Ara, uppvexti hans og fjölskyldu. Sagan er sögð af nánum vini hans, ef til vill nánum ættingja eða kannski eins konar hliðstæðu hans úr annarri vídd; Ara sem flutti aldrei frá Íslandi.

Helstu sögusvið bókarinnar eru austfirska sjávarþorpið Norðfjörður og bítlabærinn Keflavík, þar sem fólkið hefur misst kvótann en fengið ameríska herstöð í staðinn. Amma og afi Ara fella hugi saman á Norðfirði og óblíð náttúra og hörð lífsbarátta mynda umgjörð um átakanlega ástarsögu þeirra. Í Keflavík, „svartasta stað á Íslandi“, lifa margir sníkjulífi á hernum og stela frá honum; vera herliðsins setur mark sitt á menningu heimamanna og hefðbundnar siðareglur. Persónur eru trúverðugar og búa yfir innra lífi og leyndarmálum sem lesandinn fær innsýn í þegar líður á söguna.

Saman mynda hinir ólíku þræðir og persónur skrautlegan og áhrifaríkan vef sem lýsir ekki aðeins örlögum einstakra persóna heldur þjóðarinnar allrar og ekki síst verkalýðsstéttarinnar. Hið sérstæða samfélag sem myndaðist kringum herstöðina í Keflavík frá stofnun hennar 1951 hefur ekki verið mikið til umfjöllunar í íslenskum bókmenntum. Líkt og fjölskylda Ara fluttu margir til Keflavíkur til að vinna fyrir herinn og auka tekjur sínar og þróuðu með sér blöndu aðdáunar og fyrirlitningar á herliðinu og öllu amerísku. Jón Kalman reynir ekki að lýsa þessum tengslum á sagnfræðilegan hátt, heldur gerir hann það sem hæfileikamikill rithöfundur; frá upphafi til enda er hið persónulega í forgrunni, án þess þó að hið stærra samhengi falli í skuggann. Keflavík er ekki hið fagra, draumkennda Ísland sem birtist á póstkortum – hún stendur utan við það, en er um leið kjarni draumsins.

Fiskarnir hafa enga fætur er óvanalega vel skrifuð bók sem einkennist af sterkri stílgáfu höfundar og valdi hans á blæbrigðum og möguleikum tungumálsins. Jón Kalman Stefánsson er einn af bestu rithöfundum Íslands, það sýnir þessi margslungna og áhrifaríka skáldsaga svo ekki verður um villst.

Contact information