Laura Lindstedt

Laura Lindstedt
Photographer
Heini Lehväslaiho
Oneiron. Skáldsaga, Teos, 2015.

„- Oooon…ei-ron! […]Rósa hafði virst gríðarlega einbeitt. Eins og hún hefði lagt sig fram við að finna nákvæmlega réttu orðin í sínum takmarkaða orðaforða, eitthvað djarft til að hefja mál sitt á, fanga athygli áheyrenda. Og útkoman varð þetta orð.“ Gríska orðið oneiron(draumur) birtist einnig rithöfundinum Lauru Lindstedt og varð útgangspunktur skáldsögu áður en hún vissi merkingu þess.

Bók Lindstedt, sem ber undirtitilinn furðusaga af sekúndunum eftir dauðann, hrífur lesandann með sér inn í hvítt millibilsástand þar sem tími og rými eru hætt að vera til. Þessi framandlegi staður milli lífs og dauða er hið einfalda sögusvið Oneiron, þar sem sjö konur koma saman. Smám saman slokkna með konunum allar líkamlegar þarfir og kenndir: þær finna ekki til svengdar og þurfa ekki einu sinni að draga andann. Þær koma frá mismunandi heimshornum, tala mismunandi tungumál og hafa ólíkan bakgrunn. Polina er rússneskur endurskoðandi, Rosa Imaculada er brasilískur hjartaþegi og Nína frönsk húsmóðir sem á von á tvíburum. Wlbgis frá Hollandi er veik af krabbameini og Maimuna frá Senegal á sér drauma um fyrirsætustörf. Yngst kvennanna er hin austurríska Ulrike. Miðlægasta persónan er Shlomith, bandarísk gjörningalistakona af gyðingaættum, en anorexískar menningarathuganir hennar þenja hið líkamlega þema sögunnar út að ystu mörkum.

Konurnar segja hver annarri sögur þar sem þær sitja umhverfis rauða hárkollu í stað bálkastar, líkt og systkinahópur í Nangijala okkar tíma. Að lífinu loknu tilheyra þær áfram samfélagi – huggandi tilhugsun, sem gerir þeim kleift að eiga samskipti og rifja upp hið liðna. Saman eru þær meira en ella, einnig þegar ekkert er eftir. „Púlsinn er klukka. Verkurinn er klukka. Nú var allt horfið á braut, allt nema orðin. Samræðurnar […] létu tímann líða, hlúðu að konunum, sáu þær á einhvern óskiljanlegan hátt sem manneskjur.“ Að lokum víkur jafnvel tungumálið fyrir skilningi sem er nánast á sviði hugsanaflutnings. Í lokahluta verksins fylgjast konurnar að á vit endanlegrar uppgjafar og frelsis um leið og örlagastundir hverrar og einnar ljúkast upp fyrir lesandanum.

Samfélagsgagnrýnin og femínísk sýn er innbyggð í óvægið raunsæi þessarar furðusögu, en lýsingar Lindstedt á mannlegum harmleikjum og gangvirki valdbeitingar eru svo sannarlega ekki ljúfar kvöldsögur fyrir svefninn. Það leynir sér heldur ekki að höfundurinn er vel að sér í menningarsögunni og fær um að halda hinu vanabundna og sanna í vissri fjarlægð og draga það í efa – rétt eins og konurnar í hvíta millibilsástandinu þegar þær reyna að fanga orð og látbragð, hrófla upp einhverju sem minnir á heimili úr fötum sínum eða greiða atkvæði um hvort þær halda sig niðurkomnar í himnaríki eða helvíti, eins og Swedenborg lýsti því.

Lindstedt hefur listagóð tök á texta og stíl, auk hins hefðbundna prósaforms, og skrifar á vandlega slípuðu og kraftmiklu máli. Útkoman er margradda og marglaga verk sem er nútímalegt en hefur jafnframt skínandi sígilda þætti. Svo virðist sem höfundur leggi sig eftir óendanlega litlum smáatriðum í texta sem spannar heila heima innan afmarkaðs augnabliks. Í Oneiron býr hvítur veruleiki, óskrifað blað, fullt af lifandi frásögnum sem vegsama ímyndunaraflið, möguleika bókmenntanna og listræna iðju án málamiðlana.

Forvitnum lesanda er látinn eftir aðeins einn fullnægjandi kostur: að gefa sig á vald sögum hins hvíta veruleika, rétt eins og Ulrike, sem kemur síðust á staðinn, gefur sig á vald þeirri nautn sem örlagasystur hennar veita henni á fyrstu síðum bókarinnar. En auk nautnarinnar þarf að ganga gegnum sársauka og skömm. Af dirfsku og þori, gegnum allt sem lifað hefur verið.

Oneiron eftir Lauru Lindstedt (f. 1976) hlaut Finlandia-bókmenntaverðlaunin árið 2015. Frumraun hennar, Sakset (2007), var einnig tilnefnd til Finlandia-verðlaunanna. Lindstedt leggur nú lokahönd á doktorsritgerð sína um vandkvæði samskipta í höfundarverki Nathalie Sarraute.